Skip to main content

Fréttir

Frumkvöðlarnir á bak við TVÍK unnu Gulleggið 2022

 

Lokakeppni Gulleggsins, stærstu og elstu frumkvöðlakeppni Íslands á vegum Icelandic Startups, fór fram í hátíðarsal Grósku föstudaginn 4. febrúar. Gulleggið er frumkvöðlakeppni á hugmyndastigi sem haldin hefur verið af Icelandic Startups síðan 2008.

Gullegginu er af stórum hluta stýrt af sjálfboðaliðum úr röðum nemenda. Árlega sitja í verkefnastjórn keppninnar um tólf nemendur á vegum nýsköpunar- og frumkvöðlanefnda Háskóla Íslands, Háskólans í Reykjavík, Háskólans á Akureyri og Listaháskóla Íslands. Þessi hópur er skipaður til eins árs í senn og tekur þátt í fjölbreyttum verkefnum Icelandic Startups út skólaárið. 

Hlutverk þeirra í Gullegginu felst fyrst og fremst í því að sjá um skipulag og framkvæmd keppninnar undir leiðsögn verkefnastjóra Icelandic Startups.

Fyrsta sætið hlaut TVÍK en frumkvöðlarnir eru þau Gamithra Marga, Safa Jemai og Atli Jasonarson sem er m.a. starfsmaður Árnastofnunar.

Um verkefnið:

TVÍK, eða tæknivæddi íslenskukennarinn, er gagnvirkur kennsluvettvangur sem styðst við fjölda máltækniaðferða til að hjálpa þeim sem eru að stíga sín fyrstu skref í að læra íslensku. Hugmyndin er sú að hann geri fólki ekki einungis kleift að læra málið með því að leggja orð og málfræðireglur á minnið, heldur einnig með því að nota það – tala það og skrifa – og fá endurgjöf um málnotkun frá vinalegu og hjálpsömu spjallmenni. Því mætti segja að TVÍK sé í raun stafrænn málhafi sem getur átt í samtölum við fólk, spjallað við það og veitt því endurgjöf um orðfæri þess og málbeitingu.

Það sem er mikilvægast er að skapa fólki öruggan vettvang þar sem það þorir að tjá sig á íslensku, í mæltu máli og rituðu, og gera mistök – sem er auðvitað stór hluti sérhvers námsferlis – án þess að hafa áhyggjur af því hvort það geti borið fram 'Eyjafjallajökull' á fullkominn máta.

Gamithra Marga, Safa Jemai og Atli Jasonarson hafa öll lært íslensku einhvers staðar á lífsleiðinni og þykir vænt um málið. Þess vegna vilja þau auðvelda fólki að læra það.

Langstærstur hluti gagnanna sem TVÍK sækir þekkingu sína í er tilkominn vegna þrotlausrar vinnu þeirra sem komið hafa að máltækniáætlun fyrir íslensku síðustu ár. Án hennar er erfitt að ímynda sér að hægt væri að spjalla við vélmenni á íslensku – og hvað þá að það væri fært um að veita endurgjöf um það hvernig fólk notaði málið!