Skip to main content

Fréttir

Útgáfur Árnastofnunar 2021

Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum gaf út fimm bækur á árinu 2021.

Út komu eftirfarandi rit:

Orð og tunga 23 í ritstjórn Helgu Hilmisdóttur. Að þessu sinni var kallað sérstaklega eftir greinum sem lúta að tilbrigðum í íslensku. Tvær greinar bárust sem falla að meginþemanu en einnig birtast hér greinar um orðmyndun og íðorðastarf. 

Gripla XXXII í ritstjórn Annette Lassen og Gísla Sigurðssonar. Ein grein tímaritsins sætir sérstökum tíðindum en þar segir frá íslenskum tvíblöðungi á skinni sem Bjarni Gunnar Ásgeirsson, doktorsnemi við Háskóla Íslands, fann nýlega í British Library innan um handrit úr bókasafni hertogans af Buckingham og Chandos í Stowe House á fyrri hluta 19. aldar.

Reykjaholt Revisited. Representing Snorri in Sturla Þórðarsson's Íslendinga saga eftir Úlfar Bragason. Bókin fjallar um mynd þá sem Íslendinga saga Sturlu Þórðarsonar dregur upp af Snorra Sturlusyni, um viðhorf og aðferðir sagnaritarans og textasamfélag hans. 

Önnur útgáfa Íðorðasafns í alþjóðastjórnmálum og stjórnmálafræði kom út í lok árs og er hún um það bil tvöfalt stærri að umfangi en fyrri útgáfa sem kom út árið 2011. Ritstjórar orðasafnsins eru Ágústa Þorbergsdóttir, Salka Guðmundsdóttir og Silja Bára Ómarsdóttir.

Greinasafnið A World in Fragments — Studies on the Encyclopedic Manuscript GKS 1812 4to. Í ritinu eru þrettán greinar sem allar snúast um alfræðihandritið GKS 1812 4to og það fjölbreytta efni sem það hefur að geyma, svo sem stjörnufræði, reikningslist, kort, tímatalsfræði og latínuglósur. Aðalritstjóri bókarinnar er Gunnar Harðarson en með honum unnu Christian Etheridge, Guðrún Nordal og Svanhildur Óskarsdóttir. Umsjónarmaður af hálfu stofnunarinnar var Emily Lethbridge.

Orðlof veitt Þorbjörgu Helgadóttur sjötugri 18. maí 2021. Afmælisrit gefið út af Menningar- og minningarsjóði Mette Magnussen.