Skip to main content

Fréttir

Ný útgáfa Ísmús

Ný útgáfa af vefnum ismus.is hefur verið opnuð.

Ný útgáfa Ísmús byggir á eldri útgáfu gagnagrunnsins og inniheldur ýmsar nýjungar. Þjóðfræðihluti vefsins inniheldur nú Sagnagrunninn, gagnagrunn yfir íslenskar sagnir í prentuðum þjóðsagnasöfnum og sömuleiðis Ævintýragrunninn, svipaðan gagnagrunn yfir íslensk ævintýri. Sagnagrunnurinn var upphaflega gerður að tilstuðlan Terry Gunnell, prófessors í þjóðfræði við Háskóla Íslands, og Ævintýragrunninn var tekinn saman af Aðalheiði Guðmundsdóttur, prófessor í íslenskum bókmenntum fyrri alda við Háskóla Íslands. Nýi vefurinn veitir þannig möguleika á samhliða leit eftir þjóðfræðiefni í hljóðritum Árnastofnunar og prentuðum sögnum og ævintýrum.

Í tónlistarhluta vefsins hafa tónlistarviðburðir frá lokum 19. aldar verið skráðir og munu í fyllingu tímans fleiri viðburðir verða skráðir auk þess tónlistarfólks sem fram kom og laga sem flutt voru. Þá er boðið upp á að sjá tengsl á milli einstaklinga. Ef um tónlistarfólk er að ræða verður hægt að sjá hljómsveitir sem það er eða hefur verið í auk annarra meðlima sömu sveita. Sama er uppi á teningnum í þjóðfræðihluta vefsins en þar má sjá á myndrænan hátt ýmis tengsl milli fólks, hvort sem það tengist söfnun þjóðfræða eða bréfaskriftum en auk þjóðsagna má á nýja vefnum fletta í bréfasöfnum tengdum Jóni Árnasyni þjóðsagnasafnara og Sigurði Guðmundssyni málara.

Ásamt því að efnið hefur verið stóraukið hefur útlit vefsins verið endurhannað og gert mun aðgengilegra fyrir farsíma og önnur snjalltæki.

 

Hér er nýja útgáfan.