Skip to main content

Fréttir

Íslensk-rússnesk orðabók á netinu

Mynd: Alina Grubnyak

Í nokkur ár hefur verið aðgengileg á vef stofnunarinnar orðabók á milli íslensku og rússnesku. Um er að ræða Íslenzk-rússneska orðabók frá árinu 1962 sem samin er af Valéríj P. Bérkov með aðstoð Árna Böðvarssonar. Vefútgáfa bókarinnar er unnin í samstarfi Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum. Vinnan við verkið hófst sumarið 2016 eftir að styrkur til þess fékkst frá Nýsköpunarsjóði námsmanna og síðar fékkst styrkur frá sjóðnum Russkiy Mir.

Orðabókin sem hefur að geyma um 35 þúsund uppflettiorð á íslensku er vitaskuld barn síns tíma og ber orðaforðinn þess nokkur merki. Þrátt fyrir það er von aðstandenda þessarar vefútgáfu að hún geti komið að góðum notum þeim sem fást við íslensku í tengslum við rússnesku, og öfugt. Af hálfu Árnastofnunar er Þórdís Úlfarsdóttir ritstjóri útgáfunnar og Ragnar Hafstað sá um tæknivinnu og vefgerð. Af hálfu Vigdísarstofnunar kom Rebekka Þráinsdóttir aðjunkt upphaflega að verkinu en Natalia Viktorovna Kovachkina vann við stafrænu gerð orðabókarinnar.

Þakkir fá Árni Þór Sigurðsson sendiherra og Helgi Haraldsson, fyrrum prófessor í rússnesku, fyrir áhuga og hvatningu.

 

Hér er tengill á orðabókina

http://islruss.arnastofnun.is