Páskar eru mestu hátíðisdagar kristinna manna og grundvöllur tímatals þeirra. Ólíkt jólum (25. desember) eru páskar ekki haldnir á fyrirfram ákveðnum mánaðardegi heldur fer dagsetning þeirra eftir afstöðu tungls og sólar. Þannig er páskadagur fyrsti sunnudagur eftir fullt tungl að loknum vorjafndægrum og getur orðið á bilinu 22. mars til 25. apríl. Páskar eru það sem eru kallaðir hræranleg hátíð og miðast aðrir hræranlegir hátíðisdagar við páskana, t.d. hvítasunna, uppstigningardagur og pálmasunnudagur.