Skip to main content

Smjörnefni

Birtist upphaflega í febrúar 2010.

Smjör er allalgengt í örnefnum á Íslandi og kemur fyrir um allt land. Í daglegu máli merkir smjör nú nær eingöngu feitiefni sem búið er til með því að strokka rjóma úr kúamjólk. Áður fyrr var einnig búið til smjör úr sauðamjólk. – Margir velta fyrir sér merkingu örnefna sem byrja á Smjör- enda blasir kannski ekki við hvernig þau eru hugsuð. Örnefnin íslensku geta þar að auki haft mismunandi rithætti, ýmist Smjör-, Smér- eða Smjer.

Jónas Jónasson frá Hrafnagili, Íslenzkir þjóðhættir, bls. 47.

Í Landnámu er sagan fræga af því þegar Hrafna-Flóki og fylgarmenn hans lýsa landkostum á Íslandi. „Flóki [lét] illa yfir, en Herjólfur sagði kost og löst af landinu, en Þórólfur kvað drjúpa smjör af hverju strái á landinu ... því var hann kallaður Þórólfur smjör.“ Hér er orðið augljóslega notað til að gefa mikla landkosti til kynna.

Örnefni með Smjör- koma fyrir í öðrum norrænum málum. Smørenge er t.d. til í Danmörku (Dansk Stednavneleksikon I 1981:109) og merkir 'engi sem gefur vel af sér'. Smörhult er í Svíþjóð með svipaða merkingu. Í Norsk stadnamnleksikon (4. útg. 2007:412–413) er getið allmargra norskra örnefna með Smjör-. Slík nöfn hafa verið algeng í Noregi frá elstu tíð og hafa allajafna jákvæða merkingu, lýsa góðum kostum lands, einkum með tilliti til beitar. Dæmi: SmørfjordenSmørsteinSmørstabbenSmørelva. Þess er getið þar að nafn eins og Smørfjorden kunni að vísa til góðrar veiði. Á það er einnig bent á að sum nöfn til sjávar með Smjör- gætu verið e.k. „gæðanöfn“ (nöfn sem hafa mildandi áhrif, eru andstæða við nóanöfn eða nóaorð). Slík nöfn mundu þá einkum höfð um hættulega staði og erfiðar leiðir. Í Mjóafirði er til örnefnið Smjörvogur, hömrum luktur vogur sem illt er að komast í nema af sjó. Frásagnir eru af því að glæpamaður fyrr á öldum hafi verið haldinn fangi í voginum, var hann þar í sjálfheldu því engin leið var burt. Hugsa má sér að örnefnið sé þarna gæðanafn. Það fór þó auðvitað svo á endanum að fanginn slapp burt með því að klífa ókleifa hamrana. Annar Smjörvogur er í landi Reyðarár í Siglufirði.

 

Tveir bæir að minnsta kosti hafa verið kenndir við smjör, Smjördalir í Flóa og Smjörhóll í Öxarfirði. Hvorugur bærinn er nefndur í Landnámu en báðir í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns. Tilefni þessara nafna er ekki þekkt en líklegt er að þau vísi til landgæða.

 

Algeng meðal Smjör-nafna eru t.d. örnefnin SmjörbrekkaSmjörteigurSmjördalurSmjörhjalli og Smjörhlíð. Í allflestum tilfellum tákna þau mikinn og góðan beitarkost. Smjörnefni eru ekki síst algeng þar sem fært var frá ám og þær mjólkaðar. Hér eru nokkur dæmi úr örnefnaskrám:

 

Þá vil ég minnast á Smérteig, þann dásamlega stað, sem svo margar og gómsætar gras- og víðitegundir vaxa. Eftir fráfærur var setið yfir ánum úti í Smérteig. Þá brást ekki há mjólkurnyt og kostagóð. Var meðalnyt úr á 1 mörk í mál. (Efsti-Dalur, Ögurhr. N-Ís.)

 

Þá taka við skriður og svo hjalli, er nefnist Smérhjalli, á honum er gras. Er fært var frá ánum, þótti gott að sitja þar hjá þeim út á útkomu á smjöri. (Kolbeinsvík, Árneshr. Strand.)

 

Suðaustast í landi jarðarinnar er hóll, sem heitir Smérklettur. ... Þess má geta um Smérklett, að menn telja, að nafn þetta sé í sambandi við fráfærur. (Leirulækjarsel, Álftaneshr. Mýr.)

 

Norðvestan við hann í heiðarjaðrinum eru Smérmóar mjög stórþýft austan við Holgryfjulæk, hann á upptök sín á Steinaheiði. Fráfæruær voru passaðar í Smérmóum. (Hnausakot, Fremri-Torfustaðahr. V-Hún.)

 

Efst í Dagmálafjalli eru Smjörbrekkur, sem eru hvanngrænar grasbrekkur. Ærnar gáfu langmest smjör ef þær gengu þar, og af því er nafnið dregið. (Hækingsdalur, Kjósarhr. Kjós.)

 

Ekki virðast allir kannast við að örnefni með Smjör- vísi til landkosta. Allmörg örnefni hafa þjóðsögu á bak við sig eða svokallaða alþýðuskýringu, skýringu sem gefin er eftir á til að gera torskilið örnefni ögn skiljanlegra. Dæmi um slíkt eru m.a. þessi:

 

Fremst í [Smælingjadal] innan til er dálítill bolli sem heitir Smérskál. Um hana er til saga. Einu sinni, endur fyrir löngu var stúlka í seli uppi í Smælingjadal. Verður henni eitt sinn gengið þar fram, þar sem nú heitir Smérskál, og hitti þar huldukonu. Þær taka þar tal saman. Huldukonan segir stúlkunni frá erfiðum heimilisástæðum. Hún hélt á skál í hendinni. Sagðist hún eiga mörg börn, vera fátæk og hafa lítinn búsmala. Einkum kvartaði hún sáran um smérleysi og bað selkonuna að gefa sér smér í skálina. Selkonan lofaði þessu og lét síðan alltaf í skálina í hvert sinn er hún strokkaði. Ekki er getið að hún hafi átt tal við huldukonuna eftir þetta, en hún varð gæfukona eftir þetta, og staður þessi er nefndur Smérskál síðan. (Lambeyri, Tálknafjarðarhr. V-Barð.)

 

Norðan og austan við Gamlabæjartún var Smjörbelgjatjörn. Nafn sitt dró hún af því, að í Krossanesi bjó eitt sinn hreppstjóri, sem hét Sigurður Jónsson og var kallaður Sigurður ríki. Átti hann fleiri jarðir en Krossanes, sem hann leigði, og var leigan greidd í smjöri. Þegar hann dó, var miklu af grænförðuðu smjöri í belgjum fleygt í tjörnina. (Langamýri, Seiluhr. Skag.)

 

Í fjörunni innan við [Rauðavöll] er stór steinn, nefndur Smjörsteinn. Nafnið er frá síðasta tug liðinnar aldar og er þannig til komið: Bátur úr Galtarlandi var að róa fyrir framan steininn, óvíst hvort hann var að fara eða koma af sjó. Sagði þá einn hásetanna að hann vildi hann ætti smjörböggul jafn stóran steininum. Varð það til þess að nafn þetta festist við hann en áður hafði hann ekkert nafn. (Göltur, Suðureyrarhreppur, V-Ís.)

 

Austast á Háaurum við ána er stór stakur steinn úr molabergi í grashvammi; þessi steinn heitir Smjörsteinn, er eins og smjörskaka í laginu. (Svínafell, Hofshr. A-Skaft.)

 

Nafnið Smjörbítill er sérstakt. Það kemur fyrir á þremur stöðum á landinu, á litlu svæði á Norðausturlandi. Einn Smjörbítillmun vera varða á Hólssandi, skammt norðaustan við Dettifoss. Annar er steinn í landi Garðs í Kelduhverfi: „Litlu vestar [við Guðrúnarvörðu] er Smjörbítill, dálítill steinn sunnan við veginn, er á merkjum.“ (Örnefnaskrá.) Fyrir ofan Leirhöfn á Melrakkasléttu rísa tveir smjörbítlar: „Ytri-Smjörbítill og Syðri-Smjörbítill, sem eru allháir hnúkar á austurbrún fjallanna. Milli Smjörbítla þótti kostaland fyrir kvíaær.“ (Leirhöfn, Presthólahr. N-Þing.)

 

Að auki kemur þetta orð fyrir í þjóðsögum. Í sögunni af Fóu feykirófu er getið kerlingar sem átti tvo sonu, Smjörbítil og Gullintanna. Sá fyrrnefndi var stríðalinn en hinn sveltur og vísar nafnið að líkindum til þess að Smjörbítill hafi etið mikið af smjöri. (Sbr. Guðrún Kvaran. „Hvað merkir örnefnið ‘Smjörbítill’ og hvaðan kemur orðið ‘bítill’?“. Vísindavefurinn 8.8.2006. http://visindavefur.is/?id=6111. (Skoðað 1.2.2010).)

 

Einhver kunnustu örnefnin með Smjör- á Íslandi eru að líkindum á Austurlandi. Þar eru nokkur slík nöfn saman í hnapp á litlu svæði. Smjörvötn eru á miðri Smjörvatnsheiði, hálendu heiðasvæði milli Jökuldals og Hofsárdals í Vopnafirði. Heiðin er víða yfir 700 metra yfir sjávarmáli. Þar norðaustur af eru svo Smjörfjöll, fjallabálkur sem rís hæst um 1250 m yfir sjó. Þórhallur Vilmundarson (Grímnir 1 (1980:40)) telur að Smjörvötn dragi nafn sitt af góðri beit við vötnin. Önnur hugsanleg skýring er að veiði í vatninu hafi verið góð, sbr. norska örnefnið Smjørfjorden sem áður var minnst á.

Birt þann 20.06.2018