Birtist upphaflega í febrúar 2014.
Ok heitir dyngja ein við vesturenda Langjökuls, næstum 1200 m há. Jökull hefur legið ofan á fjallinu um langa hríð en er nú óðum að hverfa. Nafnið merkir 'ávöl hæð' eða 'bunga' og á vel við landslagið. Nafnið er ekki ungt, kemur þegar fyrir í Harðarsögu og Hólmverja. Í Lýsingu Borgarfjarðarsýslu frá 1854 (Mýra- og Borgarfjarðarsýslur. Sýslu- og sóknalýsingar Hins íslenska bókmenntafélags 1839–1873. Reykjavík 2005.) er fjallið oft nefnt Okfjall en það virðist ekki hafa verið notað síðan. Á svæðinu kringum Ok eru líka örnefnin Okmelar, Okurð, Oköxl og Okásar, auk Okjökuls. Annað Ok er í fjöllunum kringum Hítarvatn á Mýrum og raunar tvö fremur en eitt. Þau ganga einnig undir nöfnunum Þórarinsdalsok og Suðurárdalsok.
Í fréttum nýverið var greint frá því að jökullinn á Oki væri að hverfa. Mæling frá 1890 sýndi að þá var jökullinn 16 ferkílómetrar en sumarið 2012 mældist hann aðeins 0,7 ferkílómetrar. Það fer því hver að verða síðastur að berja hann augum.
Annað er merkilegt við Ok og raunar einstakt, a.m.k. á Íslandi. Ok er eina fjallið, og sennilega eina örnefnið, sem getur stafað nafnið sitt sjálft. Meðfylgjandi mynd, sem tekin er úr örnefnasjá Landmælinga Íslands (http://ornefnasja.lmi.is/), sýnir þetta glögglega. Á myndinni má sjá greinilega stafina „O“ og „c“ þar sem „c“ er inni í „O“-inu, líklega til að spara pláss. Um ritháttinn með „c“ er það að segja að um aldir tíðkaðist slíkur ritháttur í íslenskum handritum og má gera því skóna að rithátturinn hafi verið í tísku þegar fjallið lærði að draga til stafs.
Síðast breytt 24. október 2023