Skip to main content

Pistlar

Laugavegur

Birtist upphaflega í febrúar 2016.

Laugavegurinn liggur úr miðbænum inn í Laugardal. Hann tekur við af Bankastræti (sem áður hét Bakarastígur eða Bakarabrekka) og stefnir austur á bóginn. Neðsti hluti Laugavegar hét áður Vegamótastígur en þá lá gatan ekki nema skammt upp holtið. Bæjarstjórnin í Reykjavík ákvað 1885 að hefja skyldi vegarlagningu inn í Þvottalaugar. Markmiðið var auðvitað að auðvelda fólki þvottaleiðangrana. Með tímanum varð gatan mesta umferðargatan í bænum og einnig mesta verslunargatan. Um 1900 var Laugavegur langfjölmennasta gatan í bænum með yfir 700 íbúa.

Laugavegurinn í Reykjavík dregur nafn sitt af Þvottalaugunum í Laugardal. Venja er að skrifa götuheitið Laugavegur, án -r-. Það er þó ekki einleikið og oft verður vart ruglings. Þannig er munur á nöfnunum Laugavegur og Laugardalur þótt heitin séu kennd við sama fyrirbærið.

Menn hafa einnig deilt um hvort væri réttara eignarfall Laugavegar eða Laugavegs. Hvorttveggja má til sanns vegar færa. Það er löng hefð fyrir því að segja og rita Laugavegs og engin ástæða til að forðast slíkt. Talin dæmi á timarit.is benda eindregið til þess og einnig samsetningar eins og Laugavegsapótek eða Laugavegssamtökin.

Vegir kenndir við laug eða laugar eru á fleiri stöðum á landinu. Á Siglufirði er Laugarvegur. Hann liggur suður úr bænum (tekur við af Hverfisgötu) og nær langleiðina að gamalli sundlaug sem er rétt sunnan við götuna Norðurtún, nálægt sjónum innarlega í firðinum. Sundlaug var byggð þar að frumkvæði ungmennafélagsins á staðnum og lærðu margir að troða marvaðann þar. Laugin er löngu komin úr notkun enda er nýrri laug inni í bænum.

Laugavegur er einnig til uppi til fjalla á Íslandi. Gönguleiðin úr Landmannalaugum suður í Þórsmörk hefur verið kölluð Laugavegurinn nú um áratuga skeið og er orðið fast í sessi. Önnur gönguleið á þessum slóðum hefur stundum verið kölluð Hverfisgatan og liggur frá Hólaskjóli suðvestur í Hvanngil eða Þórsmörk. Þessi Hverfisgata sameinast Laugaveginum neðarlega rétt eins og samnefnd gata í Reykjavík.

Frétt um mikilvægi réttrar stafsetningar á örnefnum!

Birt þann 20. júní 2018
Síðast breytt 24. október 2023