Skip to main content

Pistlar

Krythóll

Birtist upphaflega í febrúar 2006.

Í Lýtingsstaðahreppi í Skagafirði (nú Sveitarfélaginu Skagafirði) hefur bærinn Krithóll staðið um langa hríð. Að fornu hét bærinn Hóll eða Gegnishóll og á 15. öld er farið að kalla hann Kryddhól. Í fornbréfum á 15. og 16. öld er bæjarnafnið oftast ritað Kryddhóll en stundum Krydhóll (DI/Íslenzkt fornbréfasafn VI, VII, IX, XI, XII, XV, sjá nafnaskrá). Í manntalinu 1703 stendur Kryddhóll (Manntal á Íslandi árið 1703, 286) en í jarðabók Árna og Páls frá 1713 er nafnið ritað Kriddhooll en síðan bætt við „sumir vilja kalla Krithooll“ (Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns IX, 107). Í manntölunum frá 1801 og 1816 er ritað Krithóll (Manntal á Íslandi 1801, Norður- og Austuramt, 109; Manntal á Íslandi 1816 II, 837). Í jarðatali Jóns Johnsens frá 1847 stendur „Krithóll (Kryddhóll)“ (Jarðatal á Íslandi, 263). Einhvern tíma á 17. öld eða í byrjun 18. aldar virðist hafa orðið breyting á rithætti nafnsins. En hvað felst í þessari breytingu?

Elstu dæmi sýna svo ekki verður um villst að stofnsérhljóðið í fyrri hluta orðsins hefur verið y og það fer ekki að riðlast fyrr en á 17. öld þegar almennt samfall er orðið á i og yí og ý o.s.frv. Ekkert er hægt að leggja upp úr framburði orðsins í nútímamáli þar sem enginn greinarmunur er gerður á i og y. Meginspurningin er hvernig eigi að skrifa samhljóðaklasann á eftir, ddd eða t. Elstu dæmin benda til dd, sjaldnar d. Það er ekki fyrr en í byrjun 18. aldar sem rituð dæmi með t koma fram. Þetta segir þó ekki alla söguna. Engin dæmi eru önnur um orðið krydd í örnefnum á Íslandi. Orðið hefur reyndar lengi verið í málinu eða a.m.k. frá 14. öld því það kemur þá þegar fyrir í biblíuþýðingunum í Stjórn. Síðan verður þess vart stöku sinnum í þýddum riddarasögum (Flóres og Blankiflúr, Clarus) (J. Fritzner, Ordbog over Det gamle norske Sprog II, 355).

Orðið krydd er tökuorð úr miðlágþýsku krûdekrût (Ásgeir Bl. Magnússon, Íslensk orðsifjabók, 511) (sama orð og -kraut í Sauerkraut í nútímaþýsku). Það virðist á miðöldum aðeins notað um erlend krydd en aldrei íslenskar jurtir eða plöntur. Guðbrandur Þorláksson gerir árið 1571 greinarmun á kryddi og jurtum þegar hann í bréfabók sinni telur upp kjöt og fisk, lömb og kokkalaun, „wrtir och krydd“, brauð, þýskt öl, vín auk kostnaðar við organista og „actoribus comedie“ sem útgjaldaliði við biskupsveislu sína í Kaupmannahöfn (Bréfabók Guðbrands byskups Þorlákssonar, 300).

Örnefnaskráning fyrir Kryddhól

Margeir Jónsson (Torskilin bæjanöfn í Skagafjarðarsýslu I, 24–26) setur þá kenningu fram að nafn bæjarins tengist kryddjurtarækt og nefnir til dæmis laukgresi og piparrót. Galli við þessa kenningu er að engin dæmi eru um að innlendar jurtir og jarðargróður hafi verið kallaður krydd. Þessi hugmynd er tekin upp af Hjalta Pálssyni (Byggðasaga Skagafjarðar III, 52 o.áfr.). Þar er vísað í örnefnaskrá Krithóls sem varðveitt er á Örnefnastofnun Íslands [nú nafnfræðisviði Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum]. Í henni er sögð sú munnmælasaga að á Kryddhóli hafi dvalist munkar og hafi þeir ræktað kúmen enda vaxi og kúmenplantan þar enn. Engar heimildir eru um munka á þessum stað aðrar en tilvitnuð munnmælasaga. Hins vegar er vitað að kúmen var ekki ræktað á Íslandi fyrr en um miðja 17. öld, eða um 200 árum eftir að Kryddhólsnafnið sést á prenti. Það gerði Vísi-Gísli Magnússon í Fljótshlíð fyrir sunnan með góðum árangri og e.t.v. einnig á Munkaþverá í Eyjafirði (sjá t.d. Skógrækt ríkisins: www.skogur.is, undir Fræðsla, undir Skógareyðing). Bæði Margeir og Hjalti telja að breytingin dd>t (Krydd- verður Krit-) sé eðlileg hljóðbreyting. Það er ekki alls kostar rétt. Enda þótt hljóðin séu lík og raunar harla lítill munur á þeim frá hljóðfræðilegu sjónarmiði eru engin önnur dæmi um þessa breytingu í íslensku. En hvað getur þá verið á ferðinni í nafninu Krithóll ef krydd kemur ekki til greina?

Fjölmörg örnefni í íslensku draga nafn sitt af deilum milli manna, einkum um hvar landamerki liggja. Nefna má sem dæmi Þrætuhólma, Þrætudal, Þrætuholt o.s.frv., Þjark, Þrasbala, Skammadælu, Deilutorfu, Kífsá, Rimmulæk, Streitugil, Stríðsmýri o.m.fl. sem öll benda eða geta bent til deilna af einhverju tagi, yfirleitt um eignarrétt. Þrætur út af landamerkjum virðast hafa viðgengist frá landnámi og enn fara slíkar deilur fyrir dómstóla. Ekki er ólíklegt að í umræddu örnefni sjái slíkra deilna stað. Orðið krytur er gamalt í málinu og merkir 'misklíð' eða 'deilur', skylt sögninni krytja sem merkir 'mögla' eða 'nöldra' en er lítt notað í nútímamáli. Einkum er orðið þekkt í sambandinu nábúakrytur. Sennilega er einmitt um það að ræða í nafninu Krithóll eða Kryddhóll, upphaflega hefur bærinn líklega heitið Krythóll.

Í máldaga Akrakirkju frá 1382 er þess getið að Björn Brynjólfsson hafi gefið kirkjunni smájörðina Gröf sem liggur við Gegnishól, eins og jörðin hét þá, en sambeit var með jörðunum. Enn fremur átti Akrakirkja beitarrétt upp í Gegnishól auk réttar til hússtöðu og hlöðugerðar. Þessu til viðbótar var Akrakirkju veittur ýmiss réttur sameiginlega með Gegnishóli sem síðarnefndi bærinn hafði átt einn áður (DI XII, 26–28). Heimildir frá síðari öldum (örnefnaskrá Krithóls á Örnefnastofnun Íslands [nú nafnfræðisvið Árnastofnunar] eftir Rósmund G. Ingvarsson) geta þess að sel frá Ökrum hafi staðið í landi Krithóls á dögum Skúla Magnússonar (1711–1794). Það er þannig ljóst að lengi hefur verið gengið eftir þessum réttindum sem Björn Brynjólfsson veitti Akrakirkju á 14. öld. Ekki er ólíklegt að þessi réttur Akrakirkju í Krithólslandi hafi leitt af sér deilur sem stóðu um langan tíma og hafa kannski valdið því að farið var að kalla jörðina Krythól. Auk þessa má benda á að einar átta jarðir eiga land að Krythóli – í einu horninu eru mörk fjögurra jarða – og mörk Krythóls eru á kafla jafnframt hreppamörk.

Ástæða þess að Krythóll er að jafnaði skrifað Kryddhóll í skjölum er ekki augljós. Munur á framburði er ekki mikill og í raun minni en nú er því á þessum tíma var ekki greint á milli langra og stuttra sérhljóða eins og nú er gert (langt sérhljóð í kryt- en stutt í krydd-). Sjálfsagt hefur það ráðið mestu að orðið krytur var lítt þekkt þá eins og nú og hending hvort skrifari skjala hverju sinni hefur þekkt til bæjarins að einhverju leyti. Breytingin sem þarna verður er svonefnd alþýðuskýring. Nafni sem hefur þótt torrætt er breytt í annað mjög líkt sem hefur nærtækari merkingu eða hljóm. Þannig hefur t.d. Gilsþremi í Borgarfirði breyst í Gilsstreymi og Kleppstía í Klettstía; hvort tveggja vegna þess að annar liður nafnanna hefur verið torskilinn.

Viðbót í febr. 2011: Krythóll er nafn á litlum hól (nú sléttað tún) í landi Sleitustaða í Kolbeinsdal, Hólahr. Skag.

Birt þann 7. júní 2022
Síðast breytt 24. október 2023