Skip to main content

Pistlar

Hjaltagat

Birtist upphaflega í febrúar 2011.

Örnefni eru oftast nær af jarðneskum toga enda varla hægt að ímynda sér margt sem rótbindur manninn fastar við landið sitt en nöfnin í umhverfinu. Eitt er þó það örnefni á Íslandi sem er himneskt og enginn hefur nokkru sinni fest hönd á. Það er Hjaltagat í Köldukinn. Þessu örnefni er svo lýst í örnefnaskrá Gvendarstaða eftir Alfreð Ásmundsson en Helgi Jónsson var heimildarmaður hans:

„Þá eru talin þau örnefni á Gvendarstöðum sem þekkt eru á jörðu niðri. En á himni uppi, séð frá Gvendarstöðum og fleiri bæjum, er eitt örnefni, Hjaltagat, kennt við mann, er Hjalti hét og fyrstur veitti því athygli. Í þrálátri norðaustanátt og óþurrkatíð, þegar himinninn hefir lengi verið þoku kafinn, svo að hvergi hefir séð til lofts, bregður stundum fyrir, einkum seinni part dags, eða að kvöldi, heiðríkjurönd yfir Hrafnsstaðaöxl. Oftast er þessi rönd bogamynduð. Þetta er Hjaltagat og boðar þurrk að morgni, sem stendur í þrjá daga. Þess þarf vel að gæta að hvorki á undan eða jafnhliða Hjaltagati sjáist nokkurs staðar í heiðan himin. Komi það fyrir er veðurspáin marklaus.“

Ekki er til mynd af Hjaltagati svo vitað sé.

 

Viðbót nóv. 2015:
Tryggvagat er örnefni séð frá Hólum í Reykjadal. Haft um gat í skýjahulu yfir norðurenda Hvítafells, frá Hólum séð. Boðar illt í veðri.
Heimild: Geir Garðarsson, ættaður frá Hólum.

Birt þann 20. júní 2018
Síðast breytt 24. október 2023