Birtist upphaflega í apríl 2009.
Strjúgsstaðir heitir bær í Langadal í A-Hún. „Upp undan bænum er Strjúgsskarðið. Eftir því rennur lækur, sem kallaður er Strjúgsá.“ Örnefnin Strjúgshólma, Strjúgshjalla, Strjúgsgil, Strjúgsfoss, Strjúgshaug, Strjúgstjörn og Strjúgsnibbu er þar líka að finna (Örnefnaskrár Strjúgsstaða, Bólstaðarhlíðarhr., A-Hún.). Í Landnámu er getið um landnám Þorbjarnar strúgs í Langadal. Bærinn er sagður kenndur við hann og nefndur Strúgsstaðir. Nafnið á í þessu tilfelli að vera viðurnefni Þorbjarnar og merkja 'hroka' eða því um líkt. Strúgur og Strjúgur eru tvímyndir sama orðs og finnast á víxl í heimildum um þessa staði, ekki ósvipað og orðin hnúkur og hnjúkur sem eru mállýskubundin í íslensku.
Strjúgsstaðir í Langadal, A-Hún. Atlaskort LMÍ
Strjúgsá heitir annar bær við innanverðan Eyjafjörð. Þar er Strjúgsdalur og nokkur örnefni sem kennd eru við ána: Strjúgsárklettar, Strjúgsáreyrar, Strjúgsárskriður (Örnefnaskrár Strjúgsár, Saurbæjarhr. Eyf.). Báðir bæirnir eru farnir í eyði.
Örnefnið Strjúgshylur er til í Langá í landi Villingadals í Önundarfirði (Örnefnaskrá Villingadals, Mýrahr., V-Ís.). Í landi Skarðs (eða Svaðaskarðs) í Dalsmynni (S-Þing.) finnast örnefni sömu ættar. Strjúgsgil heitir þar og önnur örnefni eru dregin af því (Strjúgsgilsflá, ‑klettar, ‑skriða, ‑tungur). Úr Strjúgsgili rennur Strjúgsgilslækur (Örnefnaskrá Skarðs, Grýtubakkahr., S-Þing.). Neðst í Leirdalsheiði, í landi Grýtubakka (S-Þing.), er annað Strjúgsgil. Um það rennur Strjúgsá (Örnefnaskrá Grýtubakka, Grýtubakkahr., S-Þing.; sjá einnig Árbók FÍ 1992, bls. 107 og 2000, bls. 153). Hugsanlega leynast fleiri örnefni á Íslandi kennd við strjúg.
Á það var minnst að strjúgur hafi haft merkinguna 'hroki'. En orðið getur samkvæmt orðabókum merkt ýmislegt fleira. Til dæmis getur strjúgur verið 'matur sem búinn er til úr dýra- eða fiskabeinum með því að leggja þau í súr'. Einnig getur orðið merkt 'reiði' og staðbundið getur það staðið fyrir 'kalsavind'.
Athyglisvert er að í öllum tilfellunum tengjast örnefni með strjúg- ám eða lækjum með einum eða öðrum hætti: Strjúgsár eru þrjár talsins, Strjúgshylur einn og um Strjúgsgil rennur Strjúgsgilslækur. Hugsanlegt er að í strjúgi sé varðveitt orð sem merkt hefur upphaflega eitthvað í líkingu við 'streyma' eða 'renna' og upphaflega sé Strjúgur árheiti.
Síðast breytt 24. október 2023