Skip to main content

Pistlar

Húsanöfn í Reykjavík

Birtist upphaflega í mars 2017.

Áður en götunöfn og húsnúmer fóru að ryðja sér til rúms í bæjarskipulaginu voru hús og híbýli manna nefnd eftir þeim sjálfum. Oftast voru þau kennd við eiginnöfn manna og kvenna, t.d. Eirnýjarbær eða Símonar Hansenshús, stundum við eftirnöfn, Sívertsenshús eða Breiðfjörðshús. Einn flokkur húsanafna í gömlu Reykjavík, allstór og skemmtilegur, eru þau sem kennd eru við iðn, störf eða menntun þeirra sem þar bjuggu. Slík húsanöfn hafa verið til frá elstu tíð bæjarins, frá dögum Innréttinga Skúla Magnússonar. Meðal þeirra elstu eru t.d. Lóskerabýlið (nálægt því sem nú er Tjarnargata 6), Reipslagarahúsið eða Kaðlarahúsið (Hafnarstræti 16), Sútarahúsið (óvíst hvar það stóð) og Vefarasveinahúsið (Tjarnargata 5). Mörg hús hafa verið kennd við sitjandi biskupa, bæði Biskupshús (eitt í Lækjargötu, annað í Austurstræti, þriðja á Vesturgötu) og Biskupsstofa (Aðalstræti 10). Aðrir lærðir menn eða embættismenn bjuggu í húsum eins og Doktorshúsinu (Ránargata 13), Prófastshúsinu (Lækjargata 2), Ráðherrabústaðnum (Tjarnargata 32), Sýslumannshúsinu (Austurstræti 8) eða Stiftamtmannshúsinu (=Stjórnarráðshúsið). Þeir sem sóttu sjóinn áttu sín hús líka, t.d. Kapteinshús (Vesturgata 32) og Stýrimannshús (Hafnarstræti 2). Iðnaðarmenn bjuggu í Skraddarahúsinu (Austurstræti 8), Skómakarahúsinu (Pósthússtræti 15), Smiðshúsi (Pósthússtræti 15) og Timburmannsbæ (Tjarnargata 5). Í Hringjarabænum (einn af Melshúsabæjunum við Suðurgötu) bjó Bjarni Matthíasson hringjari við Dómkirkjuna og Vaktarabærinn (Garðastræti 25) var kenndur við Guðmund Gissurarson vaktara bæjarins en það er með elstu embættum bæjarins og undanfari lögregluþjónastarfsins. Að lokum má nefna hús sem kennt var við starf sem að mestu var á hendi kvenna, Nærkonuhúsið (Austurstræti 18), sem einnig var kallað Jordmoderhuset upp á dönsku. Nærkona er annað heiti yfir ljósmóður.

Birt þann 20. júní 2018
Síðast breytt 24. október 2023