Skip to main content

Pistlar

Birtist upphaflega í júní 2009.

Tveir bæir á Íslandi hafa borið heitið Bár, annar í Eyrarsveit á Snæfellsnesi, hinn í Flóa í Árnessýslu. Fyrrnefnda jörðin er nú tvískipt og heitir Suður-Bár og Norður-Bár.

Í Íslenskri orðabók (2007) segir að nafnið Bár sé íslenskun á Bari delle Puglie á Ítalíu og í Íslenskri orðsifjabók eftir Ásgeir Bl. Magnússon segir um Bár: „nafn á borg í Suður-Ítalíu sem kom allmikið við sögu á miðöldum. Ísl. bæjarnafnið tekið upp eftir erlenda borgarheitinu Bari.“ Það virðist semsagt vera ráð fyrir því gert að bæjarnafn uppi á Íslandi sé nefnt eftir borg suður á Ítalíu. En fær það staðist? Getur kannski verið að ítalska borgin dragi nafn af íslensku bújörðunum? Eða er e.t.v. líklegast að hvortveggja nöfnin hafi orðið til sjálfstætt?

 

Borgin Bari á Ítalíu er sannarlega til og hefur verið frá örófi alda. Hún er staðsett ofarlega á aftanverðum hæl Ítalíuskagans og á rætur í grískum nýlendum á Suður-Ítalíu. Upphaflega hét hún Barion en Barium upp á latínu. Í Árna sögu biskups kemur afbrigði þessara nafnmynda fyrir: „in adventu beati Nicholai í Barin“ (Sturlunga saga I 1988:807). Heilagur Nikulás er verndardýrlingur borgarinnar og fyrirmynd jólasveinsins. Íslenskur nafni hans, Nikulás Bergsson ábóti á Munkaþverá, heimsótti borgina um miðja 12. öld og frásögn hans af ferðalaginu, Leiðarvísir og borgaskipan, er enn varðveitt. Á einum stað telur Nikulás upp borgir á Ítalíu sem eiga sér sérstaka dýrlinga: „Í Bár hvílir sanctus Nicholaus en alinn í borg þeirri er Patera heitir. Episcopus var hann í Mirrea. Þaðan hófu kaupmenn hann í Bár og komu þar sex nóttum eftir krossmessu á vorið með helgan dóm hans.“ (Sturlunga saga, Skýringar og fræði, 1988:62).

 

Í Leiðarvísi Nikulásar er til siðs að nefna erlendar borgir, héruð og örnefni yfirleitt upp á íslensku. Þannig er Puglia nefnt Púll, Aquino = Akvínaborg, Capua = Kápa, Salerno = Salerniborg, Santa Maria del Kassiopi = Maríuhöfn, Antalya = Átalsfjörður, Mons Gaudii = Feginsbrekka, Tiber = Tífur, Taro = Tár. Greinileg tilhneiging er til að nota innlenda orðhluta í þýðingunum þar sem því verður komið við, t.d. brekka, fjörður, höfn, og í öðrum tilfellum eru þekkt íslensk orð sett í stað þess erlenda, sbr. Kápa og Tár. Líklegt verður að telja að sama máli gegni um Bár. Nikulás Bergsson hefur þekkt örnefnið af Íslandi og sett það í stað þess ítalska í riti sínu. Það hefur ekkert vafist fyrir íslenskum lesendum hans á þessum tíma að átta sig á tengingunni.

 

Bár í Flóa kemur við sögu á 16. eða 17. öld. Í fornbréfasafni segir að kirkjan í Öndverðarnesi eigi „tvö stakksengi í Flóamýri, nærri Bár“ (Diplomatarium Islandicum XV:645). Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns er bæjarins í Flóa getið (II:147). Á öðrum stað, þegar verið er að ræða um Skálholtsstað, er talað um annað örnefni af sama toga: „Landþröng er hjer mikil, svo vinnuhestar staðarins eru tíðum burtlátnir til hagagöngu um vor eður sumartímann í lönd staðarjarðanna, þar sem heitir Miklaholtsnes og Bárar foruð“ (II:291). Örnefnið er í þessu tilfelli annað hvort dregið af staðháttum eða hugsanlega hefur Bár þarna verið nafn á fornri hjáleigu (Miklaholt var a.m.k. hjáleiga). Örnefnalýsingar Bárar í Flóa gefa engar skýringar á merkingu nafnsins.

 

Bár í Eyrarsveit. Atlaskort Landmælinga Íslands

 

Bár í Eyrarsveit. Atlaskort Landmælinga Íslands.

 

Bár í Eyrarsveit kemur ekki við sögur fyrr en á 15. öld. Bærinn er nefndur í kaupmálabréfi frá 1480 og í vitnisburðarbréfi frá 1440 (DI X: 20-21) segir: „En í millum Bárar og Þórdísarstaða að sjónhending skal vera úr stapanum og í stein þann er stendur norðast í Krókaskeri ... Í millum Arnarhóls og Bárar að sjónhending ræður úr grassteini og ofan í árdalinn hjá götunum ...“ (DI VI:295). Bærinn er nefndur ótal sinnum í Sýslu- og sóknalýsingum Bókmenntafélagsins frá miðri 19.öld og mörg örnefni eru dregin af nafni hans: Bárarsnoppa, Bárarsker, Bárarvatn, Bárarháls o.m.fl. Fjöldi örnefna sem draga nafn af jörðinni bendir til þess að heitið sé gamalt. Vísa geymir m.a.s. eitt þeirra:

 

Naustálsbær og Bárartröð

bendast á við Skolla,

lítið stykki af Lágustöð

er leiðin fyrir hann Bolla.

 

Í örnefnaskrá Bárar sem varðveitt er í örnefnasafni Árnastofnunar er gerð tilraun til að skýra nafnið. Þar stendur: „Bár var áður ein jörð að öllu leyti, en seinna urðu býlin tvö, Suður-Bár og Norður-Bár. ... Nokkur spölur er á milli íbúðarhúsanna. Þau standa bæði á mjóum, en löngum hrygg, sem nær suður að Spjör og austur á móts við Þórdísarstaði. ... Hryggur þessi er með öldum og toppum, og hyggur Pétur [Sigurðsson, heimildarmaður að skránni], að nafnið Bár sé dregið af lögun hans“.

 

Hér er þá komin fram nærtækasta skýringin á merkingu nafnsins. Í örnefninu er varðveitt sama rót og er í samnafninu bára sem merkir 'alda', 'gára' eða 'ójafna'. Bárur og ójöfnur geta sannarlega komið fyrir í landslagi eins og á sjó. Öldur, hryggir, hálsar og ásar eru víða í íslensku landslagi og viðbúið að íslensk örnefni dragi dám af því.

 

Örnefnið Bár er kvenkynsorð eins og samnafnið bára en hefur sterka beygingu (eins og ár, þ.e.a.s. í merkingunni 'fjöl sem notuð er við róður'). Örnefnið varðveitir þannig leifar af fornri beygingarmynd. Ekki getur því verið rétt eins og segir í orðabókum – að bæjarnafnið Bár dragi nafn af ítalskri borg – heldur er hér um gamalt íslenskt orð að ræða og tilviljun ein að það líkist ítalska borgarheitinu. Þá tilviljun nýtti Nikulás ábóti sér í ferðasögu sinni.

Birt þann 20. júní 2018
Síðast breytt 24. október 2023