Skip to main content

Pistlar

Fimmvörðuháls og fleiri örnefni

Birtist upphaflega í apríl 2010.

Goðaland

„Goðaland, hálendur og brattur með giljum, hamrabeltum hér og hvar að ofanverðu, að neðanverðu víða grasi vaxinn, einkum í plátsi því er Básar heita. Á afréttinum er fell eitt mjög hátt er kallast Útigönguhöfði og er hann eitt hæsta fjall á afréttum þessum. Goðaland liggur norðan undir því jökulbelti eður hrygg sem [samtengir] norðurjökulinn og hájökulinn, og er næsta skammt þar yfir um ofan í Hrútafellsheiði og alvenja er að þar séu rekin lömb haust og vor í og úr afréttinum ... Annars verður að fara vestur og fram fyrir Eyjafjöll þegar ekki er færi á að fara yfir jökulinn, sem ekki er lagt upp nema í nokkurn veginn heiðskíru veðri.“ (Rangárvallasýsla. Sýslu- og sóknarlýsingar Hins íslenzka bókmenntafélags 1839–1845, 1856 og 1872–1873. Reykjavík 1968, bls. 76.)

Goðaland er svæðið þegar komið er að norðanverðu niður af Fimmvörðuhálsi. Það afmarkast af Merkurtungum og Múlatungum í vestri og austri en af Krossá í norðri. Norðan Krossár heitir Þórsmörk en algengt er að það örnefni sé mishaft um Goðaland. Þórsmörk er eingöngu svæðið handan Krossár, tungan sem þar liggur milli Krossár og Markarfljóts. Goðaland er nú einkum þekkt fyrir Bása þar sem ferðafélagið Útivist hefur aðstöðu fyrir ferðamenn.

Þórhallur Vilmundarson (Grímnir 1, 1980, bls. 89) stakk upp á því að upphaflega hefði Goðaland heitið *Góðaland vegna góðra beitarskilyrða og bendir á að sama örnefni sé til í grennd við Vífilsstaði í Garðabæ.

Kirkjan á Breiðabólstað í Fljótshlíð var öldum saman eigandi Goðalands en Austur-Eyfellingar höfðu það til nytja og guldu leigu m.a. í harðfiski. Vetrarbeit var þar talin hæfileg fyrir 30 kindur. (Örnefnaskrá Goðalands eftir Þórð Tómasson, að mestu gerð eftir hdr. Sæmundar Einarssonar, Stóru-Mörk.)

 

Fimmvörðuháls og Þrívörðusker

Þórður Tómasson lýsir svæðinu svo í riti: „Allt frá miðöldum munu Austurfjallamenn hafa farið með fjárrekstra stystu leiðina milli Goðalands og heimabyggðar, um Hrútafellsheiði, Drangshlíðarheiði og slakkann milli Eyjafjallajökuls og Mýrdalsjökuls. Meginreksturinn að sumri með fráfærulömb og eitthvað af geldfé var oftast um 11. sumarhelgina, en þó réðst rekstrardagur jafnan af veðri. ... Leiðin inn eftir hraununum – sem svo nefndust – var vörðuð, en illa var þó vörðum haldið við í seinni tíð. Numið var staðar til hvíldar á Fimmvörðuhálsi. Þar voru fimm vörður þétt saman til að átta sig á í dimmviðri. Þrjár vörður voru á Þrívörðuskeri sem stóð upp úr jökulhjarninu nokkru innar. Lægðin innan við Fimmvörðuháls var öll í jökli á þessum tíma, en fáein sker ráku kollinn upp úr honum norðaustur af hálsinum.“ (Þórður Tómasson. Þórsmörk. Land og saga, Reykjavík 1996, bls. 223–224.) Nafnið Fimmvörðuháls kemur ekki fyrir í Sýslu- og sóknarlýsingum frá því um og upp úr miðri 19. öld en ekki er ljóst hversu gamalt það er. Svæðið var lengi hulið jökli svo ekki getur það verið ýkja gamalt. Fimmvörðuháls er nú oftast haft um alla leiðina frá Skógum og yfir í Goðaland en áður fyrr átti nafnið einungis við um hálsinn efst á leiðinni. Gosstöðvarnar eru því í sjálfu sér alls ekki við Fimmvörðuháls heldur talsvert norðar. Þrívörðusker var nefnt áður, það er mun nær gosinu en Fimmvörðuháls – af myndum að dæma virðist gosið hafa komið upp norðan við Þrívörðusker og sunnan við Bröttufannarsker. Samtal við Þórð Tómasson (munnleg heimild 30.3.2010) bendir til þessa.

 

Morinsheiði

Örnefnið Morinsheiði er sérkennilegt og uppruni þess er ekki þekktur. Orðhlutinn Mor- er kunnur, getur merkt ‘smáagnir’, ‘óhreinindi’ og líka ‘mistur’ eða ‘moldrok’. Orðið getur einnig táknað lit og merkir þá það sama og þegar eitthvað er sagt mólitað. Til dæmis má nefna samsetninguna morvatn sem merkir ‘jökulvatn’. Hvernig orðmyndin Morins- er tilkomin er erfiðara að segja. Þórður Tómasson telur að heiðin dragi nafn af mórauðum lit sínum (munnleg heimild 30.3.2010). Einnig má ímynda sér að til grundvallar liggi lýsingarorðið (lh.þt.) *morinn sem að vísu er hvergi skjalfest en liggur e.t.v. sagnorðinu morna til grundvallar. Sögnin morna merkir að ‘visna’ eða ‘hrörna’. Samsetta orðið Morinsheiði gæti þá vísað til þess að hún er gróðurlaus, veðruð og eyðileg. Sambærilega samsett örnefni eru t.d. Óþveginstunga og Ódáinsakur. Samnöfn eru stundum samsett á sama hátt, nægir að nefna hulinshjálm (eða huliðshjálm) sem dæmi.

Kenningar hafa verið uppi um að heiðin sé kennd við enska ferðalanginn William Morris sem ferðaðist um Ísland árin 1871 og 1873. (William Morris, Dagbækur úr Íslandsferðum 1871–1873. Reykjavík 1975.) Örnefnið Morrisheiði hefur jafnvel sést á prentuðum kortum. Morris þessi var vissulega á svipuðum slóðum árið 1873 en hann hefur þó skv. dagbók sinni ekki farið í Goðaland heldur aðeins haft skamma viðdvöl í Þórsmörk. Ekki eru kunnar neinar heimildir um að heiðin sé kennd við Morris og ólíklegt að svo sé. Menn hafa freistast til þess að tengja heiðina við Morris vegna þess hversu torskilið örnefni Morinsheiði er og vegna þess að vitað var af Morris í nágrenninu. Þórður Tómasson aftekur að heiðin geti verið kennd við William Morris (munnleg heimild 30.3.2010).

Ritmyndin Morinsheiði kemur á prenti þegar 1884 (Ísafold 7. maí) og þá er ekki liðinn nema réttur áratugur síðan Morris var á ferðinni. Afar ólíklegt er að örnefnið kunni að hafa afbakast á svo stuttum tíma. Aðrar heimildir frá fyrri hluta 20. aldar styðja allar ritmyndina Morinsheiði. Morinsheiðarkambar heita uppi á heiðinni.

 

Heljarkambur

Þar sem Morinsheiði og hálendið undir jöklunum tengist heitir Heljarkambur. Þetta er skriðuhryggur með brattar hlíðar á báða vegu og reynist lofthræddum oft mikil raun að fara þar um. Keðjum hefur nú verið komið þar fyrir til handstyrkingar. Nokkuð hefur borið á því í umræðu undanfarna daga, og má jafnvel finna því stoð á sumum kortum, að Heljarkambur sé heiðarbrúnin suðaustan við Morinsheiði og norðaustan við gosstöðvarnar. Það er alrangt. Ekkert sérstakt nafn virðist vera á þessum stað en fyrir ekki mörgum áratugum lágu enn Hrunárjöklar yfir þessu svæði. Á myndum má sjá að þetta er endirinn á hálendissléttunni sem kemur undan jöklum og vinsælt hefur verið undanfarið að keyra þangað á jeppum og virða fyrir sér hvar hraun renna niður í Hrunagil.

 

Hrunagil

Innst (austast) á Goðalandi heita Hrunar. Talað er um tvenna Hruna sem ýmist eru kallaðir Stóri-Hruni og Litli-Hruni eða Fremri-Hruni og Ytri-Hruni (Stóri- og Fremri-Hruni er þannig sami staðurinn og á við um vestari Hrunana). Hrunarnir eru skriðurunnar brekkur sem jökulvatn hefur sorfið meðan Mýrdalsjökull gekk framar. Nafnið er tilkomið af því að hrun eru þar algeng. Gilin milli Hrunanna sjálfra og milli þeirra og Morinsheiðar eru kölluð Hrunagil en greinarmunur stundum gerður á Norðurgili og Suðurgili (Þórður Tómasson. Þórsmörk. Land og saga, Reykjavík 1996, bls. 67). Hrunagil (Suðurgil) er það gil sem hraun hefur fallið um vegna gossins. Í máli sumra staðkunnugra þarna er það gil líka nefnt Gljúfragil. Norðurgil Hrunagils er hinsvegar þar sem skilur milli Hruna og Múlatungna og fjær gosóróanum.

 

Hvannárgil

Gilin vestan við Morinsheiði eru kölluð Hvannárgil eftir ánni sem þar rennur. Hvannárgil klofnar framarlega í Norðurgil og Suðurgil (eða Norður-Hvannárgil og Suður-Hvannárgil, einnig nefnd Fremra- og Innra-Hvannárgil). Hraunstreymið frá gosstöðvunum ofan við Bröttufönn hefur til þessa runnið í Norðurgilið. Úthólmar heitir svæðið þar ofarlega í gilinu en neðar má finna örnefnið Tvístæður og þar skammt frá eru hengihamrar sem bera nafnið Loft (Þórður Tómasson. Þórsmörk. Land og saga, Reykjavík 1996, bls. 71–72).

Í heimild frá 19. öld er Hvannárgil nefnt Hvannárgljúfur (Rangárvallasýsla. Sýslu- og sóknarlýsingar Hins íslenzka bókmenntafélags 1839–1845, 1856 og 1872–1873. Reykjavík 1968, bls. 56) en því nafni virðist ekki bregða fyrir síðar.

 

Nýtt örnefni

Þegar gos hófst á hálsinum milli Eyjafjallajökuls og Mýrdalsjökuls að kveldi 20. mars byrjaði nýtt kennileiti að taka á sig mynd. Í kjölfarið hófst mikil umræða meðal manna um það hvað skyldi nefna fyrirbærið. Að ýmsu er að hyggja við val á nafni. Í fyrsta lagi þarf að liggja fyrir um hvers konar fyrirbæri er eða verður að ræða en það verður naumast ljóst fyrr en að afstöðnu gosi. Þó er þegar augljóst að gígur eða dálítið fell hefur myndast og hraun hefur runnið í ýmsar áttir. Í öðru lagi þarf að taka tillit til staðhátta og þeirra örnefna sem fyrir eru. Dálítils misskilnings hefur stundum gætt í umræðunni um hvar eldstöðin er og hvað svæðið þar heitir. Það þarf allt að liggja ljóst fyrir áður en nokkur ákvörðun er tekin um nafn. Í þriðja lagi má segja að eðlilegt sé að leita ráða hjá fólki sem best þekkir til á svæðinu. En vitaskuld ætti öllum að vera frjálst að leggja til nafn, spurningin er bara hver er bær til að skera úr um nafngiftina.

 

Gosstöðvarnar neðan við Fimmvörðuháls. Ljósmynd: David Karnå.

 

Ekki er enn ljóst hvernig staðið verður að vali á nýju örnefni. Samkvæmt venju hefur Örnefnanefnd sem heyrir undir menntamálaráðherra stundum kveðið upp úrskurð í slíkum málum. Fordæmi um slíkt eru m.a. frá Surtseyjargosinu og gosinu í Heimaey en líka frá eldri tíð. Vonandi verður þessu nafngiftarmáli komið í ákveðinn farveg sem fyrst og tilhlökkunarefni að von sé á nýju örnefni.

Birt þann 20. júní 2018
Síðast breytt 24. október 2023