Skip to main content

Pistlar

Noregur

Birtist upphaflega í mars 2016.

Landsheitið Noregur hefur yfirleitt verið talið merkja 'vegurinn í norður', 'norð-vegur', og talið vísa til þeirrar leiðar sem menn fóru til að komast norður á bóginn. Þessi hugmynd hefur verið næsta óumdeild lengi vel en nú hefur norskur fræðimaður bent á að þetta sé ekki óyggjandi. Michael Schulte, prófessor við háskólann í Ögðum (Agder), færir rök að því að sennilega sé nafnið „alþýðuskýring“ (folkeetymologi). Uppruni heitisins sé annar en nú lítur út fyrir. Sögulega sé nafnið ekki Norð-vegur heldur Nor-vegurSjá grein um þetta á norsku á síðunni forskning.no. Schulte bendir á að í elstu skriflegu heimildum á Norðurlöndum, rúnaristunum, sé nafnið ekki skrifað Norð- heldur aðeins Nor-, og sömu sögu sé að segja í dróttkvæðum.

Nafnið hafi ekkert með áttina norður að gera heldur sé það dregið af orði sem enn er til í íslensku og norsku, nór og nor, og merkir þrönga siglingaleið eða mjóa vík, skylt enska orðinu narrow. Nafnið vísi til siglingaleiðarinnar meðfram ströndum Noregs rétt eins og Norð-vegur var talið gera. Nafnið Noregur dregur því eftir sem áður nafn af leiðinni meðfram ströndinni en viðmiðið er dálítið annað. Þessi hugmynd Schultes er að vísu ekki glæný heldur hafa fræðimenn kastað henni fram öðru hverju og menn deilt um sanngildi hennar. Inn í þessa sögu er líka stundum dreginn forn norrænn sækonungur að nafni Nórr eða Nóri. Á það má líka benda að í íslensku er til samhljóma orðið nór í merkingunni 'skip' eða 'bátur'. Það orð er svo skylt latneska orðinu navis sem einnig merkir 'skip'. Íslenska orðið naust 'bátsskýli' er einnig af sömu rót.

Birt þann 20. júní 2018
Síðast breytt 24. október 2023