Skip to main content

Fréttir

Þorleifur Hauksson og útgáfur fornra texta

Þorleifur Hauksson flutti fyrirlestur fyrir gesti Norræna hússins 13. nóvember 2018. Erindi hans nefndist  „Hugleiðingar og reynslusögur um mismunandi útgáfur íslenskra fornrita.“

Í upphafi dagskrár bauð Guðrún Nordal gesti velkomna og Guðvarður Már Gunnlaugsson sagði deili á Þorleifi og rannsóknar- og útgáfustarfi hans.

Hér má finna prentaða útgáfu fyrirlestrarins.

Hvað fnnst þér um málið.is

Nú fer hver að verða síðastur að taka þátt í notendakönnun um málið.is. Könnunin hefur verið í gangi á vefnum síðan í október og hefur svörun verið góð. 

Vefgáttin málið.is fær nú að jafnaði um 1000 heimsóknir á dag og hefur notendum fjölgað jafnt og þétt síðan forseti Íslands opnaði hana við hátíðlega viðhöfn 16. nóvember 2016.

Nýr formaður stjórnar Árnastofnunar

Ný stjórn stofnunarinnar hefur tekið til starfa fyrir tímabilið 2018−2022. Hlutverk stjórnar Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum er að vera forstöðumanni til ráðgjafar og veita honum umsagnir um starfsáætlanir og skipulag stofnunarinnar.

Stjórnin er þannig skipuð:
Dagný Jónsdóttir formaður, án tilnefningar,
Sigrún Magnúsdóttir, án tilnefningar,
Guðrún Þórhallsdóttir, tilnefnd af háskólaráði Háskóla Íslands,
Torfi Tulinius, tilnefndur af háskólaráði Háskóla Íslands,
Terry Adrian Gunnell, tilnefndur af háskólaráði Háskóla Íslands.

Fyrirlestur Ara Páls Kristinssonar í Háskólanum í Björgvin

Hinn 19. október sl. hélt Ari Páll Kristinsson boðsfyrirlestur við Háskólann í Björgvin, Institutt for lingvistiske, litterære og estetiske studier. Um var að ræða svonefndan Hannaas-fyrirlestur sem einum fræðimanni er árlega boðið að halda. Að þessu sinni var þess sérstaklega minnst með viðhöfn að 100 ár eru liðin frá því að Torleiv Hannaas, sem fyrirlestraröðin er kennd við, var skipaður prófessor í vesturnorsku máli við Bergens Museum og þar með hófust skipulegar rannsóknir og háskólakennsla í greininni í Björgvin.

Fræðslufundur um nafnfræði

Nafnfræðifélagið heldur fræðslufund laugardaginn 20. október, kl. 13.15 í stofu 202 í Odda, húsi Háskóla Íslands.

Oddgeir Eysteinsson framhaldsskólakennari talar um

Hliðstæður í örnefnum á Íslandi og Suðureyjum.

 

Einar Freyr Sigurðsson hefur störf á orðfræðisviði

Einar Freyr Sigurðsson hefur verið ráðinn rannsóknarlektor á orðfræðisviði stofnunarinnar. 

Einar lauk doktorsprófi árið 2017 frá University of Pennsylvania í Bandaríkjunum og hefur síðan starfað sem nýdoktor í rannsóknarverkefninu Greining á málfræðilegum afleiðingum stafræns málsambýlis, sem stýrt er af Sigríði Sigurjónsdóttur og Eiríki Rögnvaldssyni.

Árnastofnun á Vísindavöku

Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum var einn af tæplega fimmtíu þátttakendum á Vísindavöku Rannís 2018.

Fjölmenni sótti Vísindavöku sem í þetta sinn var haldin í Laugardalshöllinni. Þar gafst áhugasömum kostur á að kynna sér rannsóknir og starfsemi fjölmargra mismunandi stofnana, skóla, félaga og fyrirtækja sem vinna að vísindum á Íslandi og víðar.

Bás Árnastofnunar bauð fólki að kynnast fjölbreyttum gagnagrunnum og möguleikum í gegnum tölvutækni, auk þess að bjóða börnum á öllum aldri að prófa að skrifa á kálfskinn með fjöðurstaf og heimalöguðu jurtableki.

„og volsa mikið í veröldinni, en vita hvorki á né b“

Nafnfræðifélagið heldur fræðslufund laugardaginn 22. september 2018, kl. 13.15 í stofu 202 í Odda, húsi Háskóla Íslands. Aðalsteinn Hákonarson, verkefnisstjóri á nafnfræðisviði Árnastofnunar, flytur fyrirlestur sem hann nefnir:

„og volsa mikið í veröldinni, en vita hvorki á né b“. Úr sögu íslensku bókstafanafnanna