Skip to main content

Fréttir

Íslenskukennarar erlendis færa Úlfari Bragasyni afmælisrit

Á málþingi um norrænan málskilning sem haldið var í Vigdísarstofnun 28. mars síðastliðinn var Úlfari Bragasyni fært afmælisritið Dansað  við Úlfar – Nokkur spor stigin til heiðurs Úlfari Bragasyni sjötugum  22. apríl 2019. Frumkvæði að verkinu höfðu Magnús Hauksson í Kiel, Veturliði Óskarsson í Uppsölum og Þorsteinn G. Indriðason í Bergen. Í ritstjórn með þeim var Helga Hilmisdóttir hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

Ritið hefur að geyma 20 greinar eftir núverandi og fyrrverandi íslenskukennara erlendis, erlenda fræðimenn og samstarfsmenn Úlfars í íslensku sem öðru máli við Háskóla Íslands. Efni greinanna spannar vítt svið, allt frá einstökum frásögnum af samskiptum við Úlfar til greina um málfræði og bókmenntir. Í heftinu má til dæmis lesa um viðhorf Íslendinga og útlendinga til íslenskrar tungu og bókmennta, fræðast um nöldur Íslendinga í Kaupmannahöfn, heita potta, ástir á sumarnámskeiðum, lekkerheit, Lúther og slátur. Greinasafnið má nálgast í rafrænu formi á slóðinni: https://www.arnastofnun.is/is/utgefid-efni.