Skip to main content

Fréttir

Aldur Bjólfskviðu: Nokkrar málsögulegar athugasemdir

Föstudaginn 5. apríl nk. kl. 15 í stofu 303 í Árnagarði flytur Teresa Dröfn Freysdóttir Njarðvík doktorsnemi erindi sem hún nefnir og lýsir svo:

Aldur Bjólfskviðu: Nokkrar málsögulegar athugasemdir

Í fyrirlestrinum, sem byggir á BA-ritgerð frá 2014, verður fjallað um aldur Bjólfskviðu og leitast við að tímasetja kvæðið með hliðsjón af nýjustu rannsóknum á efni textans, tungumáli og efnismenningu. Lengi hefur víður tímarammi fyrir mögulegan ritunartíma kvæðisins truflað rannsóknir ákvæðinu og leitt til mjög ólíkra hugmynda um aldur og uppruna þess, sem og tilgang.

Hér verður því reynt að þrengja tímarammann með því að líta á þá efnismenningu og hugmyndafræði sem birtist í kvæðinu; greina mállýsku, orðmyndir og orðsifjafræði textans, sem og að setja efni textans í sögulegt og menningarlegt samhengi.

Bjólfskviða er mjög gildishlaðið verk sem hefur tekið inn á sig hin ýmsu menningarlegu tákn í gegnum aldirnar og fyrir vikið verður kvæðið mjög merkingarþrungið. Hugsanlega gæti kvæðið flokkast sem jaðarleifar, leifar af sögnum landnema sem lifðu í munnlegri geymd og fjölluðu um glæsta þjóðkonunga og hetjur forfeðranna í heimalandinu eftir þjóðflutningana frá Danmörku til Englands og sagðar voru í þeim tilgangi að viðhalda og styrkja sjálfsímynd þeirra og réttlæta landvinninga þeirra. Bjólfskviða er því saga heillar þjóðar.

Til þess að fá heildstæða mynd af þessu mikla kvæði er jafn nauðsynlegt að huga að uppsprettunni og varðveislusögunni sem og hinum efnislega texta. Farið verður yfir hvaða vísbendingar leynast í kvæðinu sjálfu út frá efni og tilvísunum innan þess og rýnt í málsöguleg og bragfræðileg einkenni sem virðast aldursgreinandi.

Fyrirlesturinn er hluti af vorfyrirlestraröð Máls og sögu. Þeir sem vilja halda erindi á vegum félagsins geta haft samband við formann, Aðalstein Hákonarson.