Skip to main content

Fréttir

Gömul orðabók lifnar við

Á sumrin fyllist Árnastofnun af námsmönnum sem taka þátt í rannsóknarverkefnum á vegum fastra starfsmanna stofnunarinnar og sumarið 2019 er þar engin undantekning. Á starfsstöðinni á Laugavegi 13 er núna að störfum um tugur námsmanna sem vinnur að þremur verkefnum. Eitt af þessum verkefnum lýtur að því að gera Orðabók Sigfúsar Blöndals aðgengilega á stafrænu formi. Orðabókin kom út á árunum 1920-1924 og viðbætir við hana var gefinn út 1963 en fram að þessu hefur hún ekki verið til í vefútgáfu.

Hildur Jónsdóttir vinnur að meistaraverkefni í máltækni um íslenska venslamálfræði og venslatrjábanka

Í meistaraverkefninu er tilraun gerð til að nota norskan þáttara við að þátta íslenskan texta með aflexíkalíseruðu mállíkani (e. delexicalized model). Í aflexíkalíseruðu mállíkani er búið að fjarlægja orðmyndir og uppflettimyndir úr líkaninu, eftir standa upplýsingar um orðflokk og beygingu, vensl og tegund vensla. Þessum líkönum er því hægt að beita á ólík tungumál og geta nýst vel á skyldum málum. Trjábankar eru textasöfn sem innihalda setningarfræðilega greiningu. Þeir eru lykillinn að því að þjálfa þáttara en íslenskur þáttari gæti stutt við þróun á fjölbreyttum máltækniverkefnum t.d.

Nýjar leiðbeiningar handa sveitarfélögum um örnefnamál

Sífellt er þörf fyrir ný örnefni á Íslandi. Reglulega verða landsumbrot sem breyta landslagi þannig að kallar á ný örnefni. Nýleg dæmi eru Holuhraun og berghlaupið í Hítardal ásamt stöðuvatninu sem það myndaði: Skriðan og Bakkavatn. Einnig gerast stöðugt hægfara breytingar á landslagi, til dæmis hefur hop skriðjökla á undanförnum árum leitt til myndunar nýrra lóna sem hefur þurft að nefna.

Árnastofnun hlýtur styrk úr Barnamenningarsjóði

Árnastofnun fékk rúmlega 9 milljóna króna styrk til að hrinda í framkvæmd verkefni sem gengur undir nafninu Handritin til barnanna. Verkefnið hefst í haust og því lýkur árið 2021 þegar 50 ár eru liðin frá heimkomu handritanna. 

Orðaforði í þrívídd
Sýningin Óravíddir - orðaforðinn í nýju ljósi sett upp í Safnahúsi

Árnastofnun opnar nýja sýningu á íslenskum orðaforða í Safnahúsinu 7. júní 2019, kl. 15.

Um er að ræða innsetningu þar sem aðalatriðið er myndbandsverk. Til grundvallar liggur íslenskur orðaforði í þrívídd eins og hann kemur fyrir í Íslensku orðaneti eftir Jón Hilmar Jónsson.

Gestum sýningarinnar býðst að fylgjast með orðum og tengslum þeirra á stórum skjá í rýminu. Þar verða einnig til staðar snertiskjáir sem bjóða upp á gagnvirkni, þar sem hægt verður að skoða tengsl ákveðinna orða.

Íslenskar ritreglur og pólski hluti ISLEX fá styrki

Styrkur úr Styrktarsjóði Áslaugar Hafliðadóttur til verkefna sem Árnastofnun vinnur að.

Styrktarsjóður Áslaugar Hafliðadóttur veitti nýverið fjármunum til tveggja verkefna sem unnin eru á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

Boðnarþing haldið í sjöunda sinn

Boðnarþing, málþing um ljóðlist og óðfræði,  var haldið í sjöunda sinn þann 11. maí sl. í Safnaðarheimili Neskirkju.

Dagskráin var sem hér segir:

13.15–13:45    Gauti Kristmannsson: Þýðingar án frumtexta.

13.45–14.15    Ingibjörg Þórisdóttir: Ljótt er fagurt og fagurt ljótt  – Um íslenskar þýðingar á Macbeth eftir William Shakespeare.

14.15–14.45    Soffía Auður Birgisdóttir: Kraumandi eldvirkni: Bæling og sköpunarkraftur. Um ljóð Emily Dickinson, „My Life has stood – a Loaded Gun –“.

14.45–15.15    Hlé

Hús íslenskunnar rís

Gengið hefur verið að tilboði lægstbjóðanda í byggingu Húss íslenskunnar sem rísa mun við Arngrímsgötu í Reykjavík. Í kjölfar útboðs vegna framkvæmdanna var gerð heildarkostnaðaráætlun fyrir verkefnið en hún nemur um 6,2 milljörðum kr. Ríkissjóður mun fjármagna um 70% af heildarkostnaði og Háskóli Íslands um 30% með sjálfsaflafé. Framkvæmdasýsla ríkisins annast útboðsmál vegna byggingarinnar en tilboð í framkvæmdir voru opnuð í febrúar sl. Þrjú tilboð bárust í framkvæmdina og mat Framkvæmdasýslan þau öll gild. ÍSTAK átti lægsta tilboðið í verkið.

Dagskrá ársfundar Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum

Dagskrá

Kl. 8.00 Morgunmatur

Kl. 8.30 Fundur settur

Dagný Jónsdóttir, formaður stjórnar stofnunarinnar, flytur ávarp.

Guðrún Nordal forstöðumaður stofnunarinnar segir frá starfinu undanfarin misseri og ársskýrslunni.

Trausti Dagsson verkefnisstjóri: Nýjungar Árnastofnunar á veraldarvefnum.

Árni Davíð Magnússon, starfsmaður við rafræna útgáfu á Orðabók Blöndals: Blöndal til framtíðar.

Birna Lárusdóttir, sérfræðingur í rannsóknarstöðu Sigurðar Nordals: Örnefnin og hugmyndir okkar um heiminn.

Fréttir af ársfundi Vinafélags Árnastofnunar

Vinafélag Árnastofnunar hélt aðalfund sinn síðasta vetrardag 24. apríl 2019. Þangað mættu þrjátíu félagar en rúmlega 500 eru skráðir í vinafélagið. Andri Árnason hæstaréttarlögmaður var fundarstjóri.