Í haust og vetrarbyrjun hefur verið mikill gangur í íðorðastarfi á Íslandi. Ágústa Þorbergsdóttir, málfræðingur hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og bankastjóri Íðorðabankans, segir að langþráðum áfanga hafi verið náð þegar nýr Íðorðabanki var opnaður á hátíðarfundi í Norræna húsinu 30. október. Þá var því um leið fagnað að heil öld er liðin frá því að fyrsta íðorðanefnd Verkfræðingafélags Íslands tók til starfa. Frú Vigdís Finnbogadóttir, heiðursfélagi í Verkfræðingafélagi Íslands, opnaði íðorðabankann að viðstöddu fjölmenni.
Í Íðorðabankanum má finna á sjöunda tug orðasafna sem tengjast jafn ólíkum sviðum og læknisfræði og hannyrðum, jurtafræði, sjómennsku og vélfræði. Sífellt bætist við orðasöfnin í íðorðabankanum. Nýjasta viðbótin er álorðasafn sem forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, opnaði við athöfn í álveri Rio Tinto í Straumsvík, föstudaginn 15. nóvember 2019. Unnið hafði verið að safninu í áratugi í álverinu. Guðrún Nordal forstöðumaður Árnastofnunar tók við sama tilefni við listgrip úr áli frá álverinu.
Nýlega barst Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum orðasafn í krikketíþróttinni (krika). Sendingin vakti upp spurningar um hvar mætti finna orðasöfn tengd fleiri íþróttagreinum. Í kjölfarið fundaði Ágústa Þorbergsdóttir með Ragnhildi Skúladóttur, sviðsstjóra þróunar og fræðslu hjá Íþróttasambandi Íslands. Á þeim fundi var markað upphaf frekara íðorðastarfs innan íþróttahreyfingarinnar.
Dagur íslenskrar tungu var svo valinn til að frumsýna vísi að nýju íðorðasafni í tónsköpun sem Atli Ingólfsson, prófessor í tónsmíðum við Listaháskóla Íslands, hefur unnið að undanfarin misseri. Orðin birtust á ljósahjúpi tónlistarhússins Hörpu þegar myrkvaði og vöktu forvitni vegfarenda. Nokkur dæmi:
aðkvæði
frum
hljóðróf
hljómlíki
hlymi
hnig
hrynd
hylming
kleyftónn
lithljómur
mistónn
stefbrigði
ymur
tónmynd
tónstafli.
Þeir sem hafa áhuga á að hefja markvisst íðorðastarf geta sótt um í Málræktarsjóð sem nú auglýsir eftir umsóknum um styrki til að vinna íslenskri tungu gagn á margvíslegan máta.