Skip to main content

Fréttir

ISLEX-veforðabókin hefur fengið nýtt útlit

Nú í nóvember eru átta ár liðin frá því að norræna veforðabókin ISLEX kom fyrst fyrir almenningssjónir en þá voru markmálin einungis danska, sænska og norska (bókmál og nýnorska). Nokkrum árum síðar bættust svo færeyska og finnska við orðabókina og þar með voru markmálin orðin sex.

Það þótti tímabært að veforðabókin fengi nýtt notendaviðmót í takt við nýja tíma enda fleygir tækninni fram og margt getur breyst á tæpum áratug. Hönnuður nýja vefsins er Trausti Dagsson, verkefnisstjóri í upplýsingatækni hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Aðalritstjóri orðabókarinnar er Þórdís Úlfarsdóttir og verkefnisstjóri er Halldóra Jónsdóttir.

Helstu breytingar á Islex eru þær að vefurinn er orðinn farsímavænn og svokallaðar sprettiniðurstöður birtast þegar leitarorð er skrifað í leitarreit.

Ein stærsta nýjungin á norrænu veforðabókinni er sú að við hverja færslu birtast skyldar færslur og virka eins og nokkurs konar samheitaorðabók. 

ISLEX-veforðabókin á sér fjölmarga dygga notendur, á Íslandi jafnt sem hinum Norðurlöndunum. Notendum hefur fjölgað stöðugt frá því að orðabókin var fyrst opnuð og eru þeir nú liðlega 130 þúsund á ári.

ISLEX er samstarfsverkefni sex norrænna fræðastofnana. Þetta eru auk Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum (SÁM) í Reykjavík, Det Danske Sprog- og Litteraturselskab í Kaupmannahöfn, Institutt for lingvistiske, litterære og estetiske studier við Háskólann í Bergen, Institutionen för svenska språket við Háskólann í Gautaborg, Fróðskaparsetur Føroya í Þórshöfn og Háskólinn í Helsinki.

Hér má sjá nýja vefsíðu og útlit:  http://islex.is.