Ný orð bætast sífellt við orðaforðann, jafnt tökuorð sem nýyrði. Hér verður athyglinni fyrst og fremst beint að þeirri íslensku orðmyndunarhefð að mynda ný orð úr innlendum stofnum. Samsetning er algengasta leiðin við myndun nýrra orða í íslensku en þá eru tveir eða fleiri stofnar tengdir saman til að mynda nýtt orð. Dæmi: lýðheilsa, úr lýður og heilsa, flugfélag, úr flug og félag. Þessi orðmyndunarleið er mjög virk og oft bætast slík orð við málið án þess að tekið sé eftir.