Skip to main content

Pistlar

Nýyrðavefurinn

Nýyrðavefurinn

 

Nýyrðavefurinn, nyyrdi.arnastofnun.is, er einn af vefjum Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og var hann opnaður á degi íslenskrar tungu, 16. nóvember 2018. Markmiðið með vefnum var að búa til vettvang þar sem almenningur gæti sent inn nýyrði eða tillögur að þeim til stofnunarinnar en þann möguleika hafði vantað.

Nýyrðavefurinn kemur einnig til móts við þá sem hafa áhuga á að skoða innsend nýyrði. Þar er hægt að leita eftir nýyrðinu sjálfu, samheitum þess eða erlendri samsvörun. Nýyrðum er einnig raðað í efnisflokka sem hægt er að skoða. Við flokkunina er horft til þess hvaða sviðum daglegs lífs eða menningar nýyrðin tengjast. Þar má nefna flokka eins og mat, íþróttir eða tækni.

Unnt er setja inn athugasemdir við nýyrði sem aðrir hafa sent inn og gefa þeim upp- eða niðurþumal til að láta í ljós álit sitt. Þannig má fá fram umræður um kosti og vankanta orðanna.

Sem dæmi um innsend nýyrði má nefna hlaðbanki (e. power bank), snjallbjalla (e. smart doorbell), breiðhjól (e. fat bike) og gámagrams (e. dumpster diving). Erfitt er að sjá fyrir hvort nýyrði ná að festa rætur í málinu. Langflest ný orð ná ekki að skjóta rótum og þau gleymast fljótt aftur. Sum verða samstundis á allra vörum, önnur oft jafngóð komast ekki lengra en á orðalista. Fjölmiðlar og samfélagsmiðlar hafa mikið að segja um útbreiðslu orðanna en framtíðin ein getur leitt það í ljós hvort orðið festir rætur.

Nýyrðavefurinn hefur fengið góðar viðtökur. Frá því að hann var opnaður eru notendur nú orðnir rúmlega 21.000. Aldursbil þeirra sem senda inn orð er breitt en sá elsti sem hefur skráð inn orð er fæddur 1937 og sá yngsti 2011.

Bæði er hægt að senda inn tillögur að nýjum orðum sem menn hafa sjálfir búið til en ekki síður nýyrði sem þeir hafa rekist á, t.d. í fjölmiðlum eða á netinu. Þeir sem senda inn nýyrði geta valið um það hvort þeir vilja að nafn sitt birtist.

 

Birt þann 12. ágúst 2021
Síðast breytt 24. október 2023