Skip to main content

Pistlar

Erlend heiti í íslensku máli

Fjöldamörg hversdagsleg orð í íslensku innihalda erlend sérheiti í einhverri mynd. Dæmi:

 • dísilvél
 • downs-heilkenni
 • lúxólampi
 • pekingönd
 • Toyota-verkstæði

Eins og almennt gildir um aðkomuorð geta sum erlendu sérnöfnin komið fyrir í íslensku ritmáli með breyttu sniði og íslenskara svipmóti en í frummálinu. Aðlögunarstigið er þó oft breytilegt frá einu nafni til annars. Dísilvélin er kennd við verkfræðinginn Rudolf Diesel og downs-heilkenni við lækninn John Langdon Haydon Down. Diesel hefur orðið dísil en nafn Downs heldur bókstöfunum ow sem við berum fram sem „á“. Fleiri dæmi um mannanöfn í samsettum og afleiddum orðum í íslensku:

 • akkillesarhæll
 • kalvínismi
 • lenínisti
 • Marshall-aðstoð
 • Napóleonsstríðin
 • Newtons-lögmál
 • Nóbelsverðlaun
 • parkinsonsveiki
 • thatcherismi

Auk mannanafna finnast heiti erlendra staða í fjölmörgum orðum í íslensku máli. Þar koma fyrir örnefni um álfur, lönd, borgir, héruð o.s.frv. Dæmi:

 • asíuflensa
 • bermúdabuxur
 • síamstvíburar
 • stokkhólmsheilkenni

Oft er þar um að ræða heiti dýrategunda sem tengjast viðkomandi svæði. Dæmi:

 • dalmatíuhundur
 • galloway-nautgripur

Slík örnefni tíðkast ekki síst í orðum um matvæli. Dæmi:

 • bayonne-skinka
 • berlínarbolla
 • dijon-sinnep
 • genúakaka
 • gíneupipar
 • hamborgari
 • jövukaffi
 • kínakál
 • londonlamb
 • madeirasósa
 • móselvín
 • pekingönd
 • vínarbrauð

Heiti erlendra staða koma vitaskuld fyrir ótengd íslenskum orðliðum í ýmsu samhengi í íslenskum textum. Örnefni sem tíðkast í máli eða málum heimamanna nefnast innnöfn (e. endonyms). Dæmi:

 • Guadalquivir
 • Mont Blanc
 • München
 • Nuuk
 • Rotorua
 • Utah
 • Washington

Mörg landfræðifyrirbæri hafa fleiri en eitt innnafn. Má sem dæmi nefna þý. Matterhorn, ít. Monte Cervino, fr. Mont Cervin. Fjallið er í Ölpunum, á mörkum Sviss og Ítalíu. Í íslensku samhengi tíðkast að nota þýska heitið, þ.e. hér er komin hefð á það hvert innnafnanna er valið.

Talsvert er einnig um að við notum svonefnd útnöfn (e. exonyms). Átt er við heiti sem ekki eru höfð í helsta máli eða málum þeirra sem búa á viðkomandi svæði. Sum þeirra hafa tíðkast öldum saman í íslensku. Dæmi:

 • Feneyjar
 • Hjaltland
 • Óðinsvé

Samsvarandi innnöfn eru Venezia, Shetland, Odense.

Ef erlent heiti er þýtt að hluta eða í heild líta sumir nafnfræðingar svo á að útkoman teljist til útnafna. Dæmi:

 • Fílabeinsströndin (fr. Côte d'Ivoire)
 • Höfðaborg (afr. Kaapstad, ens. Cape Town)

Þegar aðeins hluti nafns er þýddur er það einna helst sá liður sem hefur almenna merkingu (t.d. vatn, flói) fremur en sérnafnsparturinn. Dæmi:

 • Gardavatn (ít. Lago di Garda)
 • Biskajaflói (baskn. Bizkaiko Golkoa, sp. Golfo de Vizcaya, fr. Golfe de Gascogne)

Dæmi eru um að heiti séu þýðingar með viðbót til nánari skýringar:

 • Grænhöfðaeyjar (port. Cabo Verde)

Af málsögulegum ástæðum eru sum íslensk útnöfn ekki ýkja ólík samsvarandi innnöfnum. Dæmi:

 • Gautelfur (sæ. Göta älv)
 • Heiðmörk (no. Hedmark)

Útnöfn eru stundum notuð í íslensku meðfram innnöfnum. Málnotendur hafa þar val og getur það jafnframt ráðist af mismunandi stíl og textategund. Dæmi:

 • Björgvin – Bergen
 • Lundúnir – London
 • Jórvík – York
 • Rúðuborg  – Rouen

Stundum hefur útnafn tengst tilteknu fyrirbæri eða hugtaki og er þá tilsvarandi innnafn síður haft í viðkomandi samsetningu. Dæmi:

 • Dyflinnarreglugerð

Mjög oft hafa gömul útnöfn alveg horfið úr almennri notkun. Dæmi:

 • Bálagarðssíða
 • Bjarmaland

Í sumum tilvikum er hefð fyrir verulegri aðlögun erlends nafns eða nánast séríslenskri nafnmynd. Dæmi:

 • Varsjá (pól. Warszawa, þý. Warschau)

Oft er nafnmyndin þó áþekk upprunamálinu þrátt fyrir lítils háttar íslenskun ritháttar þannig að staðarheitið er þeim engin ráðgáta sem skilja ekki íslensku. Dæmi:

 • Berlín
 • Mílanó
 • París
 • Róm

Aðlögunar í rithætti gætir ekki síst í heitum sjálfstæðra ríkja. Dæmi:

 • Kúveit
 • Mexíkó

Einnig má oft greina ríka aðlögun eða íslenskun þegar staðarnafnið telst fremur algengt eða er landfræðilega og menningarsögulega „nálægt“ Íslendingum. Dæmi:

 • Aþena
 • Rín
 • Vín

Það er þó engan veginn einhlítt, sbr. heiti margra borga sem íslenskir málnotendur hafa mikil tengsl við. Áður hefur verið getið nokkurra dæma um borgainnnöfn en við þau má t.a.m. bæta þessum:

 • Winnipeg
 • Liverpool

Af Liverpool er dregið orðið púlari, ft. púlarar, um stuðningsmenn knattspyrnuliðsins.

Birt þann 7. júní 2021
Síðast breytt 24. október 2023