Skip to main content

Pistlar

Asnaleg íslensk nýyrði?

Ný orð bætast sífellt við orðaforðann, jafnt tökuorð sem nýyrði. Hér verður athyglinni fyrst og fremst beint að þeirri íslensku orðmyndunarhefð að mynda ný orð úr innlendum stofnum. Samsetning er algengasta leiðin við myndun nýrra orða í íslensku en þá eru tveir eða fleiri stofnar tengdir saman til að mynda nýtt orð. Dæmi: lýðheilsa, úr lýður og heilsa, flugfélag, úr flug og félag. Þessi orðmyndunarleið er mjög virk og oft bætast slík orð við málið án þess að tekið sé eftir. Það er reyndar svo að fæst nýyrði vekja athygli og umræðu og flestir virðast vera fylgjandi þeirri meginstefnu að mynduð séu íslensk nýyrði og að það sé mikilvægur þáttur í íslenskri málstefnu.

Endrum og sinnum verða þó áberandi umræður í samfélaginu um hvaða nýyrði af framkomnum tillögum skal taka upp í íslensku til að koma í stað erlends orðs. Nýlegt dæmi eru umræður um heppilegt íslenskt orð fyrir það hugtak sem á ensku er nefnt social distancing og merkir lágmarksfjarlægð milli fólks til að hindra að veirusmit berist milli þess. Þegar þetta er ritað eru algengustu íslensku orðin fyrir þetta hugtak samskiptafjarlægð, félagsforðun, fjarlægðarmörk, nálægðartakmörkun og félagsfjarlægð en tillögur skipta tugum og hafa margir sterkar skoðanir á því hvaða tillaga sé best og þá jafnframt hvaða tillögur séu ómögulegar. Eftirfarandi nýyrðatillögur hafa verið skráðar í Nýyrðabankann (nyyrdi.arnastofnun.is):

bil, bil á milli fólks, fárými, félagsbil, félagsfjarlægð, félagsfjærni, félagsforðun, félagsgrið, félagsleg fjarlægð, félagsnánd, fjarlægðarmörk, fjarrými, fjarstaða, fjarstæða, frákví, frávist, frávígi, friðrými, heilsurými, hæfileg fjarlægð, lýðhelgi, lýðrými, mannhelgi, millibilsástand, nálægðarbann, nándarbil, nándarmörk, náunganánd, olnbogarými, rými, rýmisfirð, rýmisforðun, rýmisnánd, rýmistóm, samskiptafjarlægð, seiling, smitbil, smitfirð, smithelgi, smitnánd, smitrýmd, snertibil, snertilaust svæði, sóttvarnabil, sóttvarnafjarlægð, sýkingarfjarlægð, sýkingarmörk, tveggja metra reglan, tveggjaseilingahaf, viðtalsbil, Víðisfjarri.

Þeir sem leggja til nýyrði gagnrýna gjarna þær tillögur sem þegar eru fram komnar. Meðal þeirra atriða sem fundið hefur verið að við eldri tillögur fyrir social distancing er t.d. að nýyrðin séu of mörg atkvæði, óþjál, klúðursleg, ekki gagnsæ og ekki lýsandi. Nýyrði eiga því helst af öllu að vera stutt, þjál og gagnsæ ef marka má þessar athugasemdir.

Skoðum þessi atriði nánar. Segja má að stutt orð séu hentugri en orð sem eru löng og mörg atkvæði. Einnig má benda á að stutt orð fara betur í samsetningum en löng orð. Samsetta orðið þyrluflugmaður er liprara en þyrilvængjuflugmaður svo dæmi sé tekið. Það er e.t.v. ekki jafnaugljóst hvað átt er við með „þjálu“ orði en ég legg þann skilning í það að það geti annars vegar átt við stutt orð og svo jafnframt að orðið sé þægilegt í framburði.

Krafan um gagnsæi nýyrða er mjög áberandi. Með gagnsæi er átt við að orðið sé lýsandi og hægt sé að lesa út úr orðinu merkingu þess eða a.m.k. vísbendingu um merkingu þess. Það er ljóst að kröfurnar um stutt nýyrði og gagnsæ nýyrði eru að vissu leyti andstæðar. Það gefur augaleið að eftir því sem orðið er styttra er minna rúm til gagnsæi. Vandasamt er að mynda nýyrði sem á að vera gagnsætt en á sama tíma eins stutt og þjált og hægt er.

Hversu mikilvægar eru þessar kröfur? Ef um er að ræða orð sem fær útbreiðslu og margir nota þá skiptir gagnsæi ekki mestu máli. Segja má að slík orð verði gagnsæ af sjálfu sér þar sem merking þeirra lærist. Æskilegt er að algeng orð séu fremur stutt orð og þjál og þar af leiðandi liprari í samsetningum. Óalgeng orð og orð sem fáir nota þurfa síður að vera stutt og þjál. Hér má t.d. nefna sérhæfð íðorð sem eru mjög oft samsett og jafnvel margsamsett. Algengt er að reynt sé að hafa slík orð eins nákvæm og hægt er, m.a. til að hægt sé að aðgreina skyld fyrirbæri. Í raftækniorðasafni eru t.d. 40–50 orð um strengi og til að aðgreina þau og gera þau gagnsæ og nákvæm þá eru mynduð samsett orð, s.s. aðalstofnstrengur og ljósleiðarastrengur. Einnig má taka dæmi úr íðorðasafni lækna en þar er að finna tæplega 20 orð um lungnabólgu. Sum orðin eru mjög löng þar sem mikið er lagt upp úr nákvæmni og reynt að koma sem flestum merkingarþáttum inn í orðin. Stundum þykja orðin löng og óþjál, t.d. millivefsplasmalungnabólga en þá er gott að hafa í huga að sambærileg erlend heiti eru það oftast líka (enska: interstitial plasma-cell pneumonia).

Þá er til viðbótar sú krafa gerð til nýyrða að þau skuli helst mynduð af innlendum orðstofni. Þetta atriði tengist áðurnefndu gagnsæi, þ.e. ef orð er myndað af innlendum orðstofni er það merkingarlega gagnsærra en tökuorð af erlendum orðstofni. Þessu tengt er einnig það atriði að auðveldara er að stafsetja og beygja orð sem eru mynduð af innlendum orðstofni en tökuorð. Í sumum fræðigreinum hefur þótt heppilegra að aðlaga erlend orð íslensku en að mynda íslensk nýyrði af innlendum stofnum. Hér má t.d. nefna ýmis efnafræðiheiti (t.d. kóbalt, kadmín) og jarðfræðiorð (t.d. gabbró, ólígósen). Þess ber þó að geta að fjölmörg tökuorð hafa aðlagast íslensku vel, hvort sem um er að ræða framburð, stafsetningu eða beygingu (t.d. skáti, bíll).

Eitt af því sem þarf að hafa í huga í sambandi við nýyrði og lífslíkur þess er hvort tökuorð hafi áður fest í sessi. Hér má taka dæmi um tökuorðið flapi sem er komið af enska orðinu flap og er notað um hreyfanlega plötu á afturhluta flugvélarvængs. Til er íslenska heitið vængbarð sem mér þykir sjálfri skiljanlegra en tökuorðið flapi sem almennt er notað en þess ber að geta að orðaforði um flug og flugvélar er mér ekki tamur. Enda þótt flapi sé ekki myndað af íslenskum stofni fellur það vel að málinu og samsetningar með því eru liprari en með íslenska orðinu, s.s. raufaflapi fremur en raufavængbarð. Í ISO-staðli um íðorðavinnu eru talin fram æskileg viðmið við myndun íðorða (transparency, consistency, appropriateness, linguistic economy, derivability and compoundability, linguistic correctness, preference for native language) og eru þau að flestu leyti samhljóða þeim atriðum sem hér hafa verið nefnd að framan.

Það sem er óvanalegt og framandi getur oft hljómað sérkennilega í fyrstu. Íslenska orðið yfir boarding er byrðing. Er þetta gott eða vont orð eða hugsanlega fyrst og fremst framandi orð? Það verður að hafa í huga að smekkur manna er ólíkur. Það sem einum finnst vera gott nýyrði getur öðrum fundist vont. Kröfur sem gerðar eru til nýyrða þurfa hins vegar að vera sanngjarnar. Í sambandi við viðhorf til íslenskra nýyrða skiptir oft máli hvort erlenda orðið er algengara og hvenær íslenska orðið kemur fram á sjónarsviðið. Nýyrði þurfa að venjast, ekki síst ef annað orð hefur áður fest í sessi. Einungis hluti nýyrða nær festu í málinu og ekki er hægt að sjá það fyrir hver lifa áfram.

Birt þann 14. apríl 2020
Síðast breytt 24. október 2023
Heimildir

Ari Páll Kristinsson. 2017. Málheimar. Sitthvað um málstefnu og málnotkun. Reykjavík: Háskólaútgáfan.

Guðrún Kvaran. 2005. Íslensk tunga II. Orð. Reykjavík: Almenna bókafélagið.

Halldór Halldórsson. 1987. Þörf á nýyrðum og sigurlíkur þeirra. Í: Ólafur Halldórsson (annaðist útgáfu). Móðurmálið: Fjórtán erindi um vanda íslenskrar tungu á vorum dögum, bls. 93–98. Reykjavík: Vísindafélag Íslendinga.

Hanna Óladóttir. 2007. „Ég þarf engin fornrit til að vita að ég er Íslendingur, ég vil samt tala íslensku“: Um viðhorf Íslendinga til eigin tungumáls. Ritið 7.1:107–130.

Íslenska til alls. Tillögur Íslenskrar málnefndar að íslenskri málstefnu samþykktar á Alþingi 12. mars 2009.

ISO 704:2009 Terminology work – Principles and methods.

Íðorðabankinn. Ágústa Þorbergsdóttir (ritstjóri). Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Sótt 8. apríl 2020 af idord.arnarstofnun.is.

Nýyrðabankinn. Ágústa Þorbergsdóttir (ritstjóri). Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Sótt 9. apríl 2020 af nyyrdi.arnarstofnun.is.