Skip to main content

Pistlar

Íslensk réttritun – nýtt rit um stafsetningu

Sífellt fleiri skrifa og þurfa að senda frá sér ritað efni af einhverju tagi. Sumir hafa atvinnu af textaskrifum og glímu við texta en aðrir skrifa eitthvað stöku sinnum: fundargerðir, misformleg tölvuskeyti eða færslur á vef. Í slíku starfi er gott að þekkja venjur og hefðir um stafsetningu og ritun.

Íslensk réttritun er nýtt rit eftir mig gefið út sem vefsíða á slóðinni rettritun.arnastofnun.is. Grunnur þess er ritreglur Íslenskrar málnefndar (ritreglur.arnastofnun.is) sem eru opinberar réttritunarreglur hér á landi. Ritið er hugsað sem stuðnings- og ítarefni við þær og er fjallað í því um sem flest hugsanleg vafaatriði í stafsetningu. Þetta á sérstaklega við um ýmis atriði sem varða greinarmerkjasetningu og afstöðu þeirra sem ég hef skrifað allmikið um á síðustu árum (Jóhannes B. Sigtryggsson 2016, 2019c, 2019d, 2021a, 2021b).

Í ritinu er meðal annars að finna kafla um stóran og lítinn staf, eitt orð eða fleiri og önnur atriði í stafsetningu. Einnig eru kaflar um ýmislegt annað sem tengist henni, til dæmis stafróf og stafrófsröðun, orðskiptingu, skammstafanir, tákn og útlit texta. Fjölmargar vísanir eru á milli ólíkra kafla og aftast er ítarleg atriðisorðaskrá.

Í allri þessari umfjöllun er ýmislegt efni tekið fyrir sem ekki er fjallað beint um í ritreglunum. Það byggist þá á öðrum heimildum sem ekki hafa sama vægi, almennri reynslu, ráðgjöf og viðmiðum sem eru ekki eins fastmótuð og ritreglurnar. Rétt er að líta á þetta sem tillögur um stöðlun á ýmsum sviðum og oft á sviðum þar sem hefðin er ekki alveg skýr.

Ástæðan fyrir því að ég skrifa nú um þetta efni er að ég hef lengi velt slíkum málum fyrir mér, er ritstjóri Íslenskrar stafsetningarorðabókar og Málfarsbankans sem Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum gefur út, tók þátt í samningu ritreglnanna (2016, 2018) fyrir Íslenska málnefnd og er umsjónarmaður vefsíðu þeirra. Ef útgáfan mælist vel fyrir hyggst ég halda áfram á næstu árum að fjalla nánar um ýmis atriði íslenskrar stafsetningar, til að mynda reglur um eitt orð eða fleiri og um stóran og lítinn staf.

Styrktarsjóður Áslaugar Hafliðadóttur veitti styrk árið 2019 til að standa straum af kostnaði við hönnun ritsins og vefsetningu þess.

Hér er smá sýnishorn úr ritinu sem tekið er úr 7. kafla þess sem nefnist Afstaða og val á greinarmerkjum og bil (https://rettritun.arnastofnun.is/kafli/7/#743):

Mjög gott væri að fá ábendingar um efni ritsins og efnistök. Þær má senda á netfangið islenskrettritun@gmail.com.

 

 

Birt þann 19. október 2021
Síðast breytt 24. október 2023
Heimildir

Jóhannes B. Sigtryggsson. 2016. Yfirlit yfir notkun strika í íslensku. Orð og tunga 18:157–167.

Jóhannes B. Sigtryggsson. 2019a. Úrfellingarpunktar. Málræktarpistill 14.11.2019. https://www.arnastofnun.is/is/utgafa-og-gagnasofn/pistlar/urfellingarpunktar (sótt 18.10.2021). 

Jóhannes B. Sigtryggsson. 2019b. Gæsalappir – um útlit tilvitnunarmerkja í íslensku. Málræktarpistill 18.12.2019. https://www.arnastofnun.is/is/utgafa-og-gagnasofn/pistlar/gaesalappir-um-utlit-tilvitnunarmerkja-i-islensku (sótt 18.10.2021).

Jóhannes B. Sigtryggsson. 2019c. Hvað eru ritreglur Íslenskrar málnefndar? Málræktarpistill 20.9.2019 https://www.arnastofnun.is/is/utgafa-og-gagnasofn/pistlar/hvad-eru-ritreglur-islenskrar-malnefndar (sótt 18.10.2021).

Jóhannes B. Sigtryggsson. 2020a. Yfirlit yfir bil. Orð og tunga 22:101–110.

Jóhannes B. Sigtryggsson. 2020b. Aðeins um hásteflinga. Í: Ágústblóm lesin til heiðurs Ágústu Þorbergsdóttur sextugri 9. september, bls. 51–53. Reykjavík: Menningar- og minningarsjóður Mette Magnussen.

Jóhannes B. Sigtryggsson. 2021a. Skáletur. Málræktarpistill 19.3.2021. https://arnastofnun.is/is/utgafa-og-gagnasofn/pistlar/skaletur.

Jóhannes B. Sigtryggsson. 2021b. Um skástrik. Í: Orð og tunga 23:145–152.

Ritreglur. Auglýsingar mennta- og menningarmálaráðuneytis nr. 695/2016 og 800/2018 með leiðréttingum. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. http://ritreglur.arnastofnun.is/ (sótt 18.10.2021).