Skip to main content

Pistlar

Á vefsíðunni Hinsegin ö-a er að finna mikinn og greinargóðan fróðleik um fjöldamörg hinsegin orð og hugtök. Þar segir m.a.:

„Undir trans regnhlífina falla trans karlar og trans konur, fólk sem fer í leiðréttingaraðgerðir, fólk sem fer ekki í aðgerðir og kynsegin fólk. Trans er á íslensku notað sem lýsingarorð eitt og sér (sbr. að vera trans) eða með öðrum orðum (sbr. hún er trans kona).“

Og enn fremur:

„Áður fyrr var hugtakið kynskiptingur notað en það er úrelt í dag og þykir niðrandi. Kynskiptingur vísar til þess að fólk skipti um kyn en upplifun trans fólks er sú að það leiðrétti kyn sitt fremur en skipti um það.“

Meðal hagsmunafélaga sem starfa í tengslum við Samtökin 78 eru Trans vinir – hagsmunasamtök foreldra og aðstandenda transbarna og ungmenna á Íslandi og Trans Ísland sem eru „stuðnings- og baráttusamtök fyrir trans fólk á Íslandi“ eins og segir á vefsíðu félagsins. Meistararitgerð Uglu Stefaníu Kristjönudóttur Jónsdóttur fjallar um „upplifun trans fólks af transtengdri heilbrigðisþjónustu á Íslandi“ eins og segir í undirfyrirsögn á titilsíðu.

            Eins og tilvitnanirnar hér á undan veita vísbendingu um er orðið trans ýmist sagnfylling (að vera trans), hliðstætt lýsingarorð (trans kona) eða rót í samsettu orði (transfóbía, transtengdur).

            Í sumum tilvikum er greinilega breytilegt hvort litið er á trans sem hliðstætt lýsingarorð eða sem rót í samsetningu. Þannig er (skv. Risamálheild Árnastofnunar) ýmist ritað trans barn (þar sem trans er hliðstætt lýsingarorð með nafnorði) eða transbarn (þar sem trans- er rót í samsettu nafnorði). Af rithætti og áherslu má ráða að tilhneiging sé til að mynda samsetningar (transútilokandi, transtengdur) þegar trans- myndar samband með lýsingarorði eða með lýsingarhætti.

            Tilbrigðin trans barn og transbarn endurspegla væntanlega mismunandi áherslu þar sem nafnorðsliðurinn (barn) hefur ýmist orðáherslu eða veika aukaáherslu í öðru atkvæði samsetningar. Áherslan og rithátturinn skiptir máli. Það er blæmunur á því að vera trans barn eða vera transbarn. Málfræðileg hliðstæða er e.t.v. að hugsa sér að sitt er hvað, grá gæs og grágæs. Grá gæs er fyrst og fremst gæs sem svo vill til að er grá að lit. Grágæs er skilgreind tegund.

Rithátturinn trans barn getur endurspeglað þá áherslu sem lögð er á hugtakið ‘barn’. Þá er undirstrikað að viðkomandi sé fyrst og fremst mannvera, barn, sem hefur mörg einkenni, en eitt þeirra er að vera trans. Rithátturinn transbarn endurspeglar aftur á móti aðeins létta aukaáherslu í framburði orðliðarins barn.

            Með ýmsum öðrum nafnorðum virðist liggja beinna við að nota trans- sem rót í samsetningu, t.d. transfóbía, transumræðan o.fl. Sennilega má segja eitthvað svipað um hugtakið transregnhlíf (þó ritað trans regnhlíf í tilvitnun hér á undan).

            Trans er sem sé óbeygjanlegt lýsingarorð (líkt og hissa eða andvaka) og getur sem slíkt ýmist verið sagnfylling (unglingurinn er trans) eða hliðstætt lýsingarorð (þau eiga trans ungling). Mikilvægt er að hægt sé að nota lýsingarorðið einmitt á þann hátt þegar það ákvarðar orð um fólk (trans karl, trans kona, trans barn ...). En jafnframt er hægt að nýta rótina trans- við gerð samsettra nafnorða og lýsingarorða eftir því sem á þarf að halda (transfóbía, transumræðan, transútilokandi ...).

            Ákveðna hliðstæðu má sjá ef horft er til orðsins döff  þegar fjallað er á íslensku um málsamfélag þeirra sem nota íslenskt táknmál. Döff  kemur fyrir sem óbeygjanlegt lýsingarorð sem hegðar sér svipað og orðið trans. Sagt er t.d. Jón er döff (döff er sagnfylling) og Þau eiga döff barn, Rannsóknir á döff samfélagi (döff er hliðstætt lýsingarorð með nafnorðum). Loks getur rótin döff- einnig verið fyrri eða fyrsti liður afleiddra og samsettra orða (döfferni, Döffblaðið, döffheimurinn).  

 

Birt þann 19. júní 2020
Síðast breytt 24. október 2023