Skip to main content

Pistlar

Orðin stjórnarskrá, stjórnarlög og stjórnlög

Skilgreining á hugtakinu stjórnarskrá er: „Lög sem geyma helstu reglur um stjórnskipun ríkis og grundvallarmannréttindi“, skv. Lögfræðiorðasafninu í Íðorðabanka Árnastofnunar. Þar er einnig gefin frekari skýring hugtaksins: „S[tjórnarskrá] er æðri öðrum réttarheimildum.“ Í orðasafninu Alþjóðastjórnmál og stjórnmálafræði er hugtakið skilgreint sem „lagabálkur sem kveður á um grunngildi og -reglur fullvalda ríkis“ og sýnt er enska jafnheitið constitution enda er það orð almennt þýtt á íslensku sem stjórnarskrá, m.a. í Hugtakasafni utanríkisráðuneytisins. 

Stjórnarskrá er sem sé lög eða lagabálkur sem geymir helstu reglur og grunngildi og eru „æðstu lög“ ríkisins. Þá má spyrja af hverju þetta er almennt nefnt -skrá, jafnt meðal almennings og sérfræðinga, en miklu sjaldnar hreinlega -lög?

Stjórnarlög, stjórnlög

Raunar kemur orðið stjórnarlög, að því er best verður séð í sömu merkingu og stjórnarskrá, fyrir í textum frá lokum 18. aldar og áfram. Elsta dæmið í Ritmálssafninu er úr Minnisverðum tíðindum I: „Fulltrúa-samqvæmid […] fullgiørdi Stiórnarløgin.“ Orðið stjórnarlög má svo finna t.a.m. fyrir og um miðja 19. öldina í tímaritum á borð við Ný félagsrit, Norðanfara og Skírni. Hér má taka dæmi úr Skírni 1841, bls. 65, þar sem sögð eru tíðindi úr Vesturheimi:

„Þjóðirnar, sem þar biggja, og hvítar eru að hörundslit, hafa ofleíngji verið undirorpnar katólskri vanþekkíngu og ófrelsi, til þess þær gjeti fært sjer í nit frelsi það, er stjórnarlög þeírra veíta þeím, og verður því lítið annað úr frelsinu, enn harðstjórn og eínlægur ófriður.“

Frá því um og eftir miðja öldina verður stofnsamsetningin stjórnlög þó algengari; notuð í Skírni, Nýjum félagsritum og víðar. Koma heitin stjórnlög og stjórnarskrá (sjá um það hér á eftir) m.a. fyrir á sömu blaðsíðu í Nýjum félagsritum 1869: „hvað stjórnlögin snertir sjálf [...] hvert einstakt atriði í stjórnarskránni“ (bls. 190).

Fjöldamörg dæmi eru síðan um orðið stjórnlög í textum allar götur síðan, frá 19. öld og 20. öld og enn frá þessari öld. Má hér sem dæmi nefna að í Morgunblaðsgrein Sigurðar Líndals, 16. október 1993, „Dómstólar og löggjafarvald“, notar hann bæði orðið stjórnlög og stjórnarskrá (feitletruð hér fyrir neðan) og verður ekki annað séð en að þau beri að skilja sem samheiti:

„Hitt er ljóst að Hæstiréttur hlýtur að virða ákvarðanir þeirra manna sem umboð hafa frá þjóðinni til landsstjórnar innan þeirra marka sem stjórnlög setja, þar á meðal mannréttindaákvæði. En þá verður fyrir sá vandi að valdmörk löggjafans eru ekki skýrt afmörkuð í ákvæðum stjórnarskrár og venjuhelguðum reglum og ekki er full samstaða um mannréttindahugtakið sjálft.“

Hér má bæta því við að einnig tíðkast heitin stjórnskipunarlög og stjórnarskipunarlög um ákvæði stjórnarskrárinnar;  frumvörp um stjórnarskrárbreytingar nefnast jafnan frumvörp til stjórnarskipunarlaga. Í Lögfræðiorðasafninu er hugtakið stjórnskipunarlög skilgreint og skýrt svo: „Ákvæði [stjórnarskrár] sem varin eru af 1. mgr. 79. gr. hennar, á þann hátt að til þess að þeim verði breytt skuli rjúfa Alþingi og stofna til almennra kosninga og Alþingi þurfi að samþykkja breytingarnar að nýju.“  Í stjórnarskránni sjálfri koma reyndar bæði fyrir heitin stjórnskipunarlög (sbr. hér á undan, í 79. gr.: "... og er[ tillagan] þá gild stjórnskipunarlög") og stjórnarskipunarlög (m.a. í 81. gr.: "Stjórnarskipunarlög þessi öðlast gildi..."). 

Samheiti en birtast í mismunandi samsetningum

Enda þótt stjórn(ar)lög og stjórnarskrá séu samheiti virðist heitið stjórnarskrá hafa miklu meiri útbreiðslu sem stakt hugtak. Sama má segja um sumar samsetningar; má þar tiltaka eftirtalin hugtök sem finna má í Lögfræðiorðasafninu: stjórnarskrárbreyting, stjórnarskrárbrot, stjórnarskrárbundinn, stjórnarskrárgildi, stjórnarskrárgjafi, stjórnarskrárígildi, stjórnarskrárnefnd, stjórnarskrárvernd.

Á hinn bóginn kemur orðið stjórnlög fyrir í öðrum samsetningum þar sem síður eða ekki er hefð fyrir því að hafa stjórnarskrár- að fyrri lið – enda þótt hugtökin séu samheiti.

Hugtakið stjórnlagaþing er t.a.m. skilgreint svo í Lögfræðiorðasafninu:

„Sérstakt þing, sett til að breyta stjórnarskrá.“ Spurningunni „Hvað er stjórnlagaþing?“ er t.a.m. svarað á þennan hátt á Vísindavefnum: „Stjórnlagaþing er þjóðkjörin samkoma sem hefur það hlutverk að semja nýja stjórnarskrá fyrir viðkomandi ríki.“ Til nánari skýringar er m.a. bætt við: „Að baki hugmyndinni um stjórnlagaþing er sama hugmynd og með þjóðkjörin þing almennt, það er að valdið spretti frá þjóðinni sjálfri og að það séu fulltrúar hennar sem setji reglur og lög, þar með talið æðstu lög hverrar þjóðar, stjórnarskrána.“

Ýmis fleiri lögfræðihugtök eru mynduð á sama hátt og stjórnlagaþing, svo sem stjórnlagaheimild (= heimild í stjórnarskrá), stjórnlagadómstóll (= sker úr um hvort lög samræmist stjórnarskrá), stjórnlagafræði, stjórnlagarof (skilgreint svo í Lögfræðiorðasafninu: „Skyndileg breyting á stjórnskipun, framkvæmd af þjóðhöfðingja, forsætisráðherra eða áþekkum valdsmanni, með aðferðum sem brjóta gegn stjórnskipunarlögum, valdarán“).

Upphaf orðsins stjórnarskrá

Framar í pistlinum var þeirri spurningu varpað fram hvers vegna heitið stjórnarskrá, þ.e. með orðliðnum -skrá, sé notað um lög.

Elsta dæmi um orðið stjórnarskrá sem fundið verður í Ritmálssafninu og á Tímarit.is er úr Skírni 1830. Þar er fjallað um erlend málefni, nánar tiltekið um frönsk stjórnmál sem voru tíðindamikil á þeim tíma. Svo vill til að höfundur frásagnarinnar gefur lesendum skýringu á því að hann grípur til orðsins stjórnarskrá og nefnir erlent jafnheiti. Verður af þessu ráðið að höfundur sé að fylgja úr hlaði nýyrði. Eins og textinn sýnir þekkir höfundur orðið stjórnarlög en vill gera svolítinn greinarmun á hugtökunum:


„Skilmálar þeir eða lög, sem skipta valdinu með lýðnum og konúnginum, og ákveða þeirra innbyrðis rètt og skyldur kallast Konstítúzíón á margar tungur, og hafa íslendingar kallað það stjórnarlög, en skjal það, sem þar um er gert, kallast charte á Frakklandi og Englandi, og þýðir það skrá, og gætum vèr kallað það stjórnarskrá, til aðgreiníngar, þvíað í henni er einnig tiltekið á hvörn hátt landsstjórnin skuli framkvæmast; þ. e. að skilja : hún ákvarðar stjórnarformið, sem einnig kallast konstítúzíón.“ (Skírnir 1830, bls. 29)

Þessi klausa bendir til þess að orðliðurinn -skrá sé til kominn sem tilraun til að láta hugtakið ná til „skjals“- eða „skrár“-merkingarinnar sem felist í erlenda orðinu charte/charter.

Orðið stjórnarskrá verður smám saman algengara og mátti hér á undan m.a. sjá dæmi um það úr Nýjum félagsritum 1869. Það festist í sessi í yfirskrift stjórnarskráa hérlendis, sbr. Stjórnarskrá um hin sjerstaklegu málefni Íslands 1874, Stjórnarskrá konungsríkisins Íslands 1920 og Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands 1944.

Það var tæpast tilviljun að greinarhöfundur í Skírni 1830 greip til orðsins skrá til að tákna ritaðan lagabálk er ætlunin var að finna samsvörun við orð á borð við charter. Orðið skrá gat í fornmáli fengið sértæku merkinguna „lögbók“.

Lagabálkurinn sem Ari fróði vísar til í Íslendingabók, og mun hafa verið skráður 1117−1118, er nefndur Hafliðaskrá, kenndur við Hafliða Másson. Í Grágás segir (fært til nútímastafsetningar): „Það skal allt hafa er finnst á skrá þeirri er Hafliði lét gera nema þokað sé síðan“. 

Til að sýna notkun orðsins skrá í fleirtölu má til gamans taka fleiri dæmi úr Grágás: „Það er og að það skulu lög vera á landi hér sem á skrám standa. En ef skrár skilur á og skal það hafa er stendur á skrám þeim er biskupar eigu. Nú skilur enn þeirra skrár á, þá skal sú hafa sitt mál er lengra segir þeim orðum er máli skipta með mönnum. En ef þær segja jafn langt og þó sitt hvor, þá skal sú hafa sitt mál er í Skálaholti er.“

 

Birt þann 5. nóvember 2020
Síðast breytt 24. október 2023