Skip to main content

Pistlar

Úrkomuákefð

Í þessum pistli verður fjallað um orðið úrkomuákefð sem er a.m.k. tveggja áratuga gamalt orð en undanfarin ár hefur notkun þess aukist eins og lesa má út úr gögnum Risamálheildarinnar:

 

Áhugavert er hve skiptar skoðanir eru á þessu orði. Í Málvöndunarþættinum á Facebook hefur alloft verið býsnast yfir orðinu og ágæti þess dregið í efa. Sem dæmi má nefna eftirfarandi ummæli: „Hefur ekki dugað hingað til að tala um hellirigningu?“ „Agalegt bullorð er þetta.“ „Ömurlegt orð!“ Starfsmenn Veðurstofu Íslands eru þó greinilega á öðru máli sem sjá má af því að á degi íslenskrar tungu árið 2018 völdu þeir það sem orð ársins og var sérstaklega tiltekið hve orðið væri hljómmikið og lýsandi.

Af hverju er ekki nóg að tala um hellirigningu eða nota eitthvert annað af þeim fjölmörgu orðum sem til eru um rigningu í íslensku, t.d. demba, hellidemba, skúr, úrhelli, steypiregn, hvolfa? Svarið er einfalt. Orðið úrkomuákefð er íðorð í veðurfræði sem merkir ekki ‘mjög mikil rigning’ heldur ‘það hversu mikil úrkoma fellur á tímaeiningu’. Langoftast er átt við úrkomu í tiltölulega stuttan tíma, allt niður í um eina mínútu, en gjarnan 10 til 60 mínútur. Á ensku kallast þetta preciptation intensity. Fræðileg orðræða krefst nákvæmra íðorða og það er engan veginn hægt að nota orðið hellirigning á sama hátt og orðið úrkomuákefð. Veðurstofa Íslands hefur á vefsíðu sinni orðskýringar þar sem skýrð eru helstu orð sem notuð eru í umfjöllun um veður og þar má m.a. fletta upp orðinu úrkomuákefð (en ekki hellirigningu enda er það ekki fræðilegt orð!).

Í skýrslu vísindanefndar um loftslagsbreytingar frá árinu 2018 kemur fram að líklegt sé að úrkomuákefð muni aukast þegar líður á öldina. Loftslagsbreytingar munu hafa í för með sér breytingar á aftakaveðrum. Aukin úrkomuákefð stafar mestmegnis af því að heitara loft er að öllu jafna rakara og því meiri vatnsgufa til að breyta í úrkomu.[1]

Ljóst er að það er mikilvægt að geta mælt úrkomuákefð. Eins og fram kemur í grein eftir Trausta Jónsson veðurfræðing í Lesbók Morgunblaðsins árið 2000 voru upplýsingar um úrkomuákefð lengi frekar takmarkaðar þar sem mjög fáir síritandi úrkomumælar voru til á landinu. Slíkum mælum hefur nú fjölgað og skrá þeir uppsafnaða úrkomu á 10 mínútna fresti allt árið um kring. Með sjálfvirkum mælingum verða upplýsingar um úrkomuákefð betri en verið hefur. Allt þetta skiptir t.d. miklu máli í sambandi við hönnun fráveitu- og frárennsliskerfa og því mikilsvert að geta fylgst með þróuninni.

Ný orð bætast sífellt við málið en tiltölulega fá orð fá mikla athygli. En hvað gæti það verið sem ýmsum mislíkar við orðið úrkomuákefð? Eins og hér hefur komið fram er það notað af sérfræðingum um magn úrkomu á tímaeiningu og því gengur ekki að nota orð eins og hellirigning eða demba í staðinn. Líklegt er að seinni liður orðsins -ákefð kalli á athygli manna. Það má velta því fyrir sér hvort ákefð vísi fyrst og fremst til mannlegra eiginda í hugum fólks og geti síður átt við um veðurfar. Samkvæmt leit í Ritmálssafni og á Tímarit.is eru samsetningar með orðinu ákefð í seinni lið ekki algengar en algengustu dæmin þar reyndust vera trúarákefð, bænarákefð og hugarákefð.

Orðið úrkomuákefð er þýðing á preciptation intensity og má spyrja hvort heppilegra hefði verið að þýða intensity á annan hátt. Í Íðorðabankanum má sjá að algengt er að þýða intensity með styrkur eða styrkleiki og því hefði mátt mynda orðin úrkomustyrkur eða úrkomustyrkleiki. Þess má þó geta að orðin æfingaákefð og þjálfunarákefð, sem notuð eru í íþróttum, virðast hafa fest sig í sessi en þau eru þýðingar á exercise intensity og training intensity. Þau eru því sambærileg við veðurfræðiorðið úrkomuákefð hvað varðar beina þýðingu og vísa til skilgreindra stiga í þjálfun á sama hátt og veðurfræðiorðið er notað til að mæla magn. Íþróttaorðin tengjast óneitanlega ákafa eða kappsemi og þar með eru þau nær grunnmerkingunni í orðinu ákefð en veðurfræðiorðið úrkomuákefð. Vandlæting félaganna í Málvöndunarhópnum er því að vissu leyti skiljanleg.

 

[1] [https://www.visindavefur.is/svar.php?id=76753]

Birt þann 15. janúar 2021
Síðast breytt 24. október 2023
Heimildir

Halldór Björnsson. (2019, 30. september). Af hverju leiðir hlýnandi loftslag til tíðari ofsaveðra? Vísindavefurinn. Sótt 14. janúar 2021 af http://visindavefur.is/svar.php?id=76753.

Íðorðabankinn. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. https://idord.arnastofnun.is/ (Sótt 14. janúar 2021).

Málvöndunarþátturinn. (2021). Á Facebook. Sótt 14. janúar 2021 af https://www.facebook.com/groups/1395992847329077.

Risamálheildin. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. https://malheildir.arnastofnun.is/ (Sótt 14. janúar 2021).

Ritmálssafn Orðabókar Háskólans. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. http://ritmálssafn.arnastofnun.is/ (Sótt 14. janúar 2021).

Tímarit.is. (2021). Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn. (Sótt 14. janúar 2021).

Trausti Jónsson. (2000, 1. júlí). Úrkoma. Lesbók Morgunblaðsins, bls. 13.

Trausti Jónsson. (2008, 7. maí). Hvar á landinu hefur komið mest úrkoma? Vísindavefurinn. Sótt 14. janúar 2021 af http://visindavefur.is/svar.php?id=29756.

Trausti Jónsson. (2011, 5. maí). Mikil rigning - hversu mikil er hún? Sótt 14. janúar 2021 á https://trj.blog.is/blog/trj/entry/1165697/.

 

Veðurstofa Íslands. 2007. Orðskýringar. Sótt 14.1.2021 af https://www.vedur.is/vedur/frodleikur/greinar/nr/936.

Veðurstofa Íslands. (2018, 16. nóvember). Orð dagsins á degi íslenskrar tungu. Sótt 14. janúar 2021 af https://m.facebook.com/Vedurstofan/photos/or%C3%B0-dagsins-h%C3%A9r-%C3%A1-ve%C3%B0urstofunni-%C3%A1-degi-%C3%ADslenskrar-tungu-er-or%C3%B0i%C3%B0-%C3%BArkomu%C3%A1kef%C3%B0-hlj/2067814759952743.

Vísindanefnd um loftslagsbreytingar. (2018). Loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á Íslandi. Sótt 14. janúar 2021 af https://www.vedur.is/media/loftslag/Skyrsla-loftslagsbreytingar-2018-Vefur-NY.pdf.