Skip to main content

Fréttir

Ritdómur um Góssið hans Árna

Bókin Góssið hans Árna fékk jákvæða umfjöllun í nýju hefti hins gamla og virta fræðitímarits Arkiv för nordisk filologi sem gefið er út í Svíþjóð. Ritdómurinn er eftir Karl G. Johansson, prófessor í norrænum fræðum í Ósló. Johansson leggur út af inngangi bókarinnar, sem fjallar um tilgang skrár UNESCO, Minni heimsins, og undirstrikar m.a. forgengileika handritanna.

Styrkir Snorra Sturlusonar veittir í tuttugasta og fjórða sinn

Í tilefni af 750. ártíð Snorra Sturlusonar, 23. september 1991, ákvað ríkisstjórn Íslands að efna til styrkja sem kenndir yrðu við nafn hans. Samkvæmt reglum um styrkina, sem gefnar voru út 1992, skulu þeir árlega boðnir erlendum rithöfundum, þýðendum og fræðimönnum til að dveljast á Íslandi í því skyni að kynnast sem best íslenskri tungu, menningu og mannlífi. Styrkirnir skulu veittir í þrjá mánuði hið minnsta og miðast við greiðslu á ferðakostnaði styrkþega og dvalarkostnaði innanlands.

Afmælisrit gefin út af Menningar- og minningarsjóði Mette Magnussen

Starfsmenn Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum hafa umsjón með Menningar- og minningarsjóði Mette Magnussen og gefa út til gamans fjölrituð smárit til heiðurs samstarfsmönnum sínum og öðrum kollegum er þeir eiga merkisafmæli.

Nýlega kom út rit á vegum Mettusjóðs: Svanafjaðrir skornar Svanhildi Maríu Gunnarsdóttur fimmtugri 2. júlí 2015. Í ritinu er fjöldi stuttra og skemmtilegra greina til heiðurs afmæliskonunni.

Umsjón með útgáfu Svanafjaðra höfðu Soffía Guðný Guðmundsdóttir, Margrét Eggertsdóttir og Guðvarður Már Gunnlaugsson.

Ráðstefna um vesturíslenskt mál og menningu

Miðvikudaginn 2. desember verður efnt til ráðstefnu um vesturíslenskt mál og menningu.

Ráðstefnan verður haldin í fyrirlestrasal Þjóðminjasafnsins og tengist  rannsóknaverkefninu „Mál, mábreytingar og menningarleg sjálfsmynd“ sem hlaut styrk úr Rannsóknasjóði (Rannís).

Ráðstefnan nýtur stuðnings Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum, Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Málvísindastofnunar Háskóla Íslands.