Skip to main content

Fréttir

Handritaleiðsögn á ensku allar helgar í sumar

Kaupbréf fyrir Reykjavík frá árinu 1615. Ljósmynd: Jóhanna Ólafsdóttir.

 

Sýningin Landnámssögur – arfur í orðum í Borgarsögusafni Reykjavíkur, Aðalstræti 16, segir sögu af landnámi Íslands. Auk annarra merkra minja eru þar sýnd handrit að Landnámabók, Íslendingabók, Kjalnesingasögu og Jónsbók auk kaupbréfs fyrir Reykjavík frá árinu 1615.

 

Í sumar munu erlendir nemendur í íslenskum fræðum við Háskóla Íslands –Viktória Gyönki, Grayson Del Faro, Hannah Lomas og Balduin Landolt–  í samvinnu við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum bjóða upp á leiðsögn um handritin á ensku á laugar- og sunnudögum kl. 11:00 og 14:00. Ef áhugi er á leiðsögn á öðrum tungumálum er velkomið að hafa samband við aðstandendur sýningarinnar þar sem nemendurnir koma víðs vegar að og geta boðið upp á sýningar á tungumálum á borð við ungversku, þýsku, norsku og jafnvel fleirum.

 

Handrit Kjalnesingasögu. Ljósmynd: Jóhanna Ólafsdóttir.

 

Um handritasýninguna (texti fenginn frá heimasíðu Borgarsögusafns Reykjavíkur):

Á tólftu og þrettándu öld voru skrifaðar sögur um landnám Íslands og mannlíf í landinu frá níundu öld og framyfir kristnitöku árið 1000. Sögurnar eru um landnámskonur og -karla frá Noregi og Bretlandseyjum, hvaðan þau voru ættuð, hvar þau settust að og hver væru helstu afkomendur þeirra. Stundum er greint frá ástæðum þess að fólk tók sig upp úr heimahögunum. Minningar og frásagnir koma úr öllum landshornum og lýsa örnefnum sem gefin voru við fyrsta fund manns og villtrar náttúru, segja frá siglingum til annarra landa, leiðum á milli staða innanlands og viðleitni fólks til að skipuleggja hið nýja samfélag með lögum og þinghaldi þar sem reynt er að leysa deilur um landamerki, landsnytjar, ástir, völd og mannvíg á meðan trúarbrögðin þokast frá heiðni til kristni.

Sögurnar eru ýmist felldar í sagnfræðilegt mót, líkt og í Íslendingabók Ara fróða sem var rituð á þriðja áratug 12. aldar og Landnámu sem er til í tveimur heilum gerðum frá því um 1300, Sturlubók og Hauksbók, eða í listilega samsettar frásagnir sem kallaðar eru Íslendingasögur. Sögusvið Íslendingasagna er héraðsbundið en atburðir, ættir og persónur tengjast með margvíslegum hætti og sameinast oft á Alþingi við Öxará.

Sá heilsteypti sagnaheimur sem þessar bækur draga upp af nýju samfélagi fólks í áður óbyggðu landi á engan sinn líka í heimsbókmenntunum. Líkt og með aðrar frásagnarbókmenntir ríkir óvissa um hvort þær séu heimild um raunverulegt fólk og atburði. Almennur ytri veruleiki sagnanna, tímasetningar, hugmyndir um uppruna og trúarbrögð auk minninga um gróðurfar og einstaka eldgos falla þó vel að því sem ráða má af öðrum heimildum og gefur það tilefni til að fullyrða að einhver samfella hafi verið í munnlegri geymd frá landnámi til ritunartímans þótt slík samfella þurfi ekki að auka trúverðugleika sagnanna.

 

Íslendingabók AM 113 g fol. Ljósmynd: Jóhanna Ólafsdóttir.