Skip to main content

Fréttir

Fyrirlestraferð til Vilnius

 

Halldóra Jónsdóttir og Þórdís Úlfarsdóttir frá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum ásamt Önnu Hannesdóttur frá Gautaborgarháskóla héldu í byrjun maí tvo fyrirlestra við deild skandinavískra tungumála við Háskólann í Vilníus. Kynnt var ISLEX-verkefnið, sem er orðabók milli íslensku og sex skandinavískra mála (islex.is).

Annars vegar var haldinn fyrirlestur fyrir nemendur deildarinnar og hins vegar fyrir kennara og starfsfólk. Fyrirlestrunum var mjög vel tekið enda er mikill áhugi á norrænum fræðum við þennan sögufræga háskóla sem stofnaður var árið 1579. Athygli vakti sá mikli fjöldi nemenda sem leggur þar stund á skandinavísk tungumál, um 120 nemendur, og er þó háskóladeildin ekki nema 25 ára gömul. Gestgjafi þremenninganna var Rasa Baranauskiene sem er mörgum starfsmönnum stofnunarinnar að góðu kunn þar sem hún dvaldi um skeið við handritasvið stofnunarinnar og fæst nú við að þýða Njálu á litháísku.