Fertugasti og annar fundur kennara í íslensku við erlenda háskóla var haldinn í Ludwig-Maximilians-Universität (LMU), Institut für Nordische Philologie, München, Þýskalandi, dagana 27.–28. maí síðastliðinn. Katharina Schubert, lektor í íslensku við skólann, skipulagði fundinn og stjórnaði honum.
Fundinn sóttu 15 kennarar sem kenna við 14 háskóla í Noregi, Svíþjóð, Finnlandi, Þýskalandi, Austurríki, Frakklandi, Bretlandi, Kanada og Kína. Auk þeirra sátu Úlfar Bragason og Halldóra Jónsdóttir fundinn af hálfu Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum en alþjóðasvið stofnunarinnar annast stuðning íslenskra stjórnvalda við íslenskukennslu við erlenda háskóla.
Á fundinum var rætt um kennslu í íslensku fyrir útlendinga, kennslufræði tungumála, kennslubækur í íslensku fyrir útlendinga, íslenska menningarkynningu erlendis og íslensk fræði. Sérstaklega var rætt um notkun á vefnámsefninu Icelandic Online í kennslu við erlenda háskóla og veforðabókina ISLEX. Kom fram mikill áhugi á að fá orðabókargrunninn þýddan á fleiri markmál, ekki síst þýsku, en mjög margir nema íslensku við þýska háskóla. Þá var lýst yfir mikilli ánægju með vefinn Beygingarlýsing íslensks nútímamáls (BÍN) sem gagnast nemendum mikið í íslenskunámi.
Íslenska er víðast hvar tungumál sem háskólanemar stunda með námi í öðru tungumáli/öðrum tungumálum. Hún er jafnan aukamál eða annað málið í Norðurlandafræðinámi eða öðru námi stúdenta. Aðsókn að náminu er mikil. Hins vegar hefur niðurskurður á fjárveitingum til háskólanáms víða erlendis, ekki síst í hugvísindum, komið niður á tungumálanámi og gæti hann til lengdar haft áhrif á framboð á íslenskukennslu við erlenda háskóla.