Lars Lönnroth prófessor emeritus við Gautaborgarháskóla kemur til Íslands á vegum Miðaldastofu Háskóla Íslands. Hann heldur fyrirlestur
fimmtudaginn 19. maí, kl. 16.30 í stofu 101 í Odda.
Allir eru velkomnir á meðan húsrúm leyfir.
Síðustu þrjú ár hafa nýjar bækur og nokkrar greinar verið gefnar út um Brennu-Njáls sögu. Bækurnar hafa komið út utan Norðurlanda og af því má ráða að sagan sé komin í hóp meistaraverka vestrænna bókmennta. Í fyrirlestri sínum mun Lönnroth ræða verk Williams Ians Millers, Why is your Axe Bloody? A Reading of Njáls Saga. Lönnroth telur að þar sé á ferð fullkominn mislestur textans, þar sem sagan er fyrst og fremst saga frá miðöldum með trúarlegu yfirbragði, en ekki raunsæisleg glæpasaga úr nútímanum.
Lars Lönnroth hóf feril sinn við Uppsalaháskóla í Svíþjóð. Doktorsritgerð hans frá árinu 1965 fjallaði um miðevrópsk áhrif á ritun Íslendingasagna. Hann var kennari í skandinavískum bókmenntum við Kaliforníuháskóla, Berkeley, frá 1965–1974 en þá tók hann við stöðu prófessors við Álaborgarháskólann í Danmörku. Árið 1982 sneri hann aftur til Svíþjóðar þar sem hann starfaði við Gautaborgarháskóla til ársins 2000 auk þess að ritstýra menningarhluta Svenska Dagbladet á árunum 1991–1993. Á meðal þekktustu verka Lönnroths eru Njáls Saga: A Critical Introduction (1976), Skaldemjödet i berget. Essayer om fornisländsk ordkonst och dess återanvändning i nutiden (1996) og The Academy of Odin: Selected Papers on Old Norse Literature (2011). Hann gaf einnig út sjálfsævisöguna Dörrar till främmande rum. Minnesfragment árið 2009.
Hér má sjá í heild sinni útdrátt fyrirlesarans á ensku. Allir velkomnir.