Skip to main content

Fréttir

Menningarviðburður um íslenskar bókmenntir og tónlist

Fimmtudaginn 19. nóvember stóð Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum ásamt íslenskukennurum við erlenda háskóla fyrir menningardagskrá á netinu. Á milli klukkan 14 og 16 að íslenskum tíma heimsóttu fjórir rithöfundar og þrír tónlistarmenn íslenskunema víðs vegar um heiminn á Zoom-samskiptaforritinu og spjölluðu á ensku við Brynhildi Björnsdóttur, menningarfræðing og söngkonu.

Styrkur til að rannsaka what, sorry og fleiri orð í norrænum málum og finnsku

Nýverið hlaut verkefnið Málnotkunarlegar tökur í norrænum málum og finnsku: samanburður á samskiptamunstri (Pragmatic borrowing in the Nordic languages and Finnish: a cross-linguistic study of interaction) norrænan styrk til að halda þrjár málstofur sem skipulagðar verða af Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Helga Hilmisdóttir, rannsóknardósent á orðfræðisviði, fer fyrir hópi fimmtán málfræðinga sem rannsaka upphrópanir, orðræðuagnir og aðrar málnotkunarlegar tökur í norrænum málum og finnsku.

Íslensk-danskur orðabókarsjóður afhentur Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum

Stjórn Íslensks-dansks orðabókarsjóðs hefur afhent Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum gjafabréf að öllum eignum sjóðsins. Í stjórninni sitja Guðrún Kvaran (formaður), Hrefna Arnalds, Jón G. Friðjónsson og Vésteinn Ólason. Sjóðurinn á sér óvenjulega sögu og merkilegan tilgang. Árið 1919 fékk Björg C. Þorláksson, sem vann að orðabókinni með Sigfúsi Blöndal eiginmanni sínum frá árinu 1903, þá frumlegu hugmynd að orðabókin ætti „að eiga sig sjálf“, og væri eins konar „bók sem sjálfseigandi stofnun“.

Evrópsk MA-ritgerðasamkeppni innan efnissviðanna málnotkun, málstefna og margmála umhverfi

Samtökin EFNIL (European Federation of National Institutions for Language) standa að evrópskri samkeppni þar sem höfundar MA-ritgerða geta keppt um peningaverðlaun. Ritgerðirnar eiga að vera innan efnissviðanna málnotkun, málstefna og margmála umhverfi

Möguleika á verðlaununum 2021 eiga ritgerðir sem lokið er, og háskólar hafa tekið gildar og gefið einkunn fyrir, eftir 1. sept. 2019 og fram til ársloka 2020. Umsóknarfrestur er til 31. des. 2020.

Hugurinn einatt hleypur minn er komin út hjá Félagi ljóðaunnenda á Austurlandi

Bókin Hugurinn einatt hleypur minn er komin út hjá Félagi ljóðaunnenda á Austurlandi. Í bókinni eru birt kvæði, rímur og vísur eftir Guðnýju Árnadóttur sem fæddist árið 1813 á Valþjófsstað í Fljótsdal og lést 1897 í Hvalnesi í Lóni. Flest kvæðin birtast hér á prenti í fyrsta sinn en þau eru varðveitt í handritum á Austurlandi og í þjóðfræðasafni Árnastofnunar. Þar fer afkomandi Guðnýjar, Inga Þorleifsdóttir (1908–2000), með kvæðin í upptöku frá árinu 1993 og má hlýða á hér.

Viðurkenningar Íslenskrar málnefndar árið 2020

Árlega veitir Íslensk málnefnd viðurkenningar fyrir eitthvað sem vel er gert á sviði málræktar eða líklegt er til að efla íslenska tungu.

Á málræktarþingi, sem haldið var 26. september og bar yfirskriftina Viðhorf til íslensku, fengu eftirtaldir viðurkenningu:

Viaplay hlaut viðurkenningu Íslenskrar málnefndar fyrir frumkvæði í textun erlends efnis frá streymisveitu.

Útvarpsþátturinn Nýjar raddir hlaut viðurkenningu Íslenskrar málnefndar fyrir frumkvöðlastarf í að leyfa röddum innflytjenda sem tala íslensku að heyrast.