Skip to main content

Fréttir

Þrjú verkefni styrkt af Nýsköpunarsjóði námsmanna

Þrjú verkefni á vegum Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum hlutu styrk úr Nýsköpunarsjóði námsmanna.

Verkefnið Interactive reading of the Poetic Edda Online var styrkt um 2,7 milljónir króna. Markmið verkefnisins er að búa til gagnvirkt efni fyrir kennslu í lestri á forníslensku. Þýðingar á nútímaíslensku og ensku eru hafðar til hliðsjónar meðan á lestri stendur og þá fylgja efninu jafnframt gagnvirkar æfingar og ítarefni, til dæmis hljóðupptökur á framburði og upplýsingar um kenningar. Verkefnið er framhald af árangursríku verkefni sem unnið var árið 2020 þar sem Völuspá og Hávamál voru tekin fyrir og verður nú ellefu ljóðum bætt við. Umsjónarmaður verkefnis er Branislav Bedi.

Styrkur upp á 1,8 milljónir króna var veittur verkefninu Talmálsorðabók á netinu. Markmið verkefnisins er að leggja grunn að veforðabók sem inniheldur orð og orðasambönd sem einkenna íslensk samtöl. Dæmi um slík orð og orðasambönd eru sko, jæja og bíddu nú við. Slík dæmi er erfitt að skilgreina með hefðbundnum orðabókarskýringum þar sem þau hafa takmarkaða merkingu en þau gegna þó mikilvægu hlutverki í samtölum fólks á íslensku. Í talmálsorðabókinni munu notendur því einnig geta hlustað á brot úr samtölum þar sem orðin eða orðasamböndin koma fyrir. Orðabókin verður öllum opin og er sérstaklega hugsuð fyrir nemendur í íslensku sem öðru máli og þýðendur sem fást við talmál. Umsjónarmaður verkefnis er Helga Hilmisdóttir.

Verkefnið Stofnun miðlægs bæjatals á Íslandi til rannsókna hlaut 900 þúsund krónur í styrk. Verkefnið miðar að því að þróa gagnagrunn sem mun halda utan um bæjarnöfn og örnefni á Íslandi, staðsetningar þeirra, lýsingu, heimildir og aðrar tengingar og upplýsingar. Þá verður þróaður vefþjónn sem mun auðvelda tengingu annarra kerfa við bæjatalið. Með því verða gögnin aðgengileg hverjum þeim sem vilja byggja á þeim og nýta áfram við rannsóknir og nýsköpun. Umsjónarmaður verkefnis er Þórunn Sigurðardóttir.

Við óskum styrkhöfum til hamingju.