Skip to main content

Fréttir

Vigdís Finnbogadóttir opnar nýja íslensk-franska veforðabók

Frá vinstri: Vigdís Finnbogadóttir, Rósa Elín Davíðsdóttir, Halldóra Jónsdóttir og Þórdís Úlfarsdóttir

Lexía, ný íslensk-frönsk veforðabók, var opnuð með viðhöfn 16. júní í Veröld – húsi Vigdísar af Vigdísi Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta Íslands. Margir tóku til máls við opnunina og meðal þeirra sem fluttu ávarp voru Roselyne Bachelot-Narquin, menningar- og samskiptamálaráðherra Frakklands, Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands.

Íslensk-frönsk veforðabók er afrakstur samkomulags á milli Íslands og Frakklands frá árinu 1983 um að efla samvinnu og samskipti þjóðanna á sviði vísinda og menningar. Árið 2014 hófst vinna við gerð stafrænnar orðabókar milli íslensku og frönsku í samstarfi Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum við Háskóla Íslands. Af hálfu Árnastofnunar hafa þær Þórdís Úlfarsdóttir aðalritstjóri og Halldóra Jónsdóttir verkefnisstjóri haft veg og vanda af verkinu. Hjá Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur hefur Rósa Elín Davíðsdóttir orðabókafræðingur verið ritstjóri franska hluta bókarinnar og haft umsjón með þýðingarvinnunni.

Lexía er opin á vefnum án endurgjalds.