Skip to main content

Fréttir

Ráðandi tungumál í ferðaþjónustu

Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Ferðamáladeild Háskólans á Hólum stóðu nýverið fyrir rannsókn á hvert væri ríkjandi mál í ferðaþjónustu á Íslandi. Rannsóknina unnu Ágústa Þorbergsdóttir, málfræðingur á Árnastofnun, Anna Vilborg Einarsdóttir og Sigríður Sigurðardóttir, lektorar við Ferðamáladeild Háskólans á Hólum.

Á árunum 2018–2019 urðu hraðar breytingar í ferðaþjónustu og ferðamönnum fjölgaði ört jafnt yfir sumar sem vetur. Vegna þess var erfitt að finna íslenskt vinnuafl í ferðaþjónustustörf og varð það til þess að stöður voru í auknum mæli mannaðar með erlendu starfsfólki sem ekki alltaf talaði íslensku. Á þessu tímabili varð einnig algengara að sjá ferðaþjónustufyrirtæki sem báru ensk nöfn í stað íslenskra. Skilti sem veittu upplýsingar um vörur og þjónustu voru oft alfarið á ensku. Sumarið 2020 þegar COVID-faraldurinn geisaði víða um heim var lítið um erlenda gesti og í þeirra stað flökkuðu Íslendingar um sveitir landsins meira en áður. Þjónustan var víðast hvar góð en samskipti og upplýsingar voru oftar en ekki á ensku.

Markmið rannsóknarinnar var að rannsaka hver væri „staða íslensku í markaðssetningu ferðaþjónustunnar og hvaða þættir ráða því hvort enska eða íslenska verður ráðandi tungumál í ferðaþjónustunni?“

Niðurstöður gefa það sterklega til kynna að ferðaþjónustuaðilar sjái sér ekki hag í að nota íslensku í þjónustu og við útgáfu upplýsinga og á markaðsefni. Ekki margir sjá sérstaka ástæðu til þess að nota bæði íslensku og ensku. Telja rannsakendur að full ástæða sé til að hvetja ferðaþjónustuaðila sérstaklega til þess að móta sér málstefnu þar sem íslensk tunga fái forgang í þjónustu. Segir jafnframt í lokaorðum skýrslu rannsóknarinnar: „Enginn ætti að geta ferðast um Ísland án þess að komast að því að hér á landi er talað sérstakt tungumál sem er ekki enska.“

Skýrsluna er hægt að lesa í heild sinni hér.