Sigrún Kristjánsdóttir hóf í vikunni störf sem sýningarstjóri Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Sigrún mun stýra mótun og uppsetningu nýrrar sýningar í Húsi íslenskunnar sem áætlað er að verði opnuð haustið 2023. Sýningin veitir tækifæri til að vekja áhuga á þeim menningararfi sem felst í fjölbreyttum gögnum Árnastofnunar og sýna hann í nýju ljósi.
Sigrún er með meistaragráðu í safnafræði frá Háskólanum í Leicester og BA-gráðu í þjóðfræði frá Háskóla Íslands. Síðastliðin ár hefur hún sinnt mörgum verkefnum í starfi sínu sem deildarstjóri miðlunar og fræðslu hjá Borgarsögusafni Reykjavíkur, meðal annars uppsetningu á grunnsýningu Sjóminjasafnsins, Fiskur og fólk: Sjósókn í 50 ár. Áður gegndi hún starfi forstöðumanns Menningarmiðstöðvar Þingeyinga og þar áður var hún fagstjóri safnfræðslu hjá Þjóðminjasafni Íslands. Þá kom hún að opnun nýs Þjóðminjasafns árið 2004 og hafði umsjón með vöruhönnun, greinaskrifum og fræðslumálum.
Við bjóðum Sigrúnu velkomna til starfa.