Tuttugasta og þriðja hefti tímaritsins Orð og tunga er komið út í ritstjórn Helgu Hilmisdóttur.
Að þessu sinni var kallað sérstaklega eftir greinum sem lúta að tilbrigðum í íslensku. Tvær greinar bárust sem falla að meginþemanu en einnig birtast hér greinar um orðmyndun og íðorðastarf.
Í ritrýnda hluta heftisins fjallar Ari Páll Kristinsson um innri breytileika í íslensku nútímamáli. Í greininni ber hann saman málnotkun sama einstaklings, Gísla Marteins Baldurssonar, í vefpistlum sem fjalla um borgarpólitík, í færslum á Twitter og í sjónvarpsviðtölum við þjóðþekkta Íslendinga. Ásta Svavarsdóttir skoðar svo tilbrigði í sendibréfum íslenskrar fjölskyldu á 19. öld. Í grein Þorsteins G. Indriðasonar segir frá viðskeytaröðum í íslensku þar sem hann veltir meðal annars fyrir sér hvað stjórni því hvaða viðskeytaraðir séu mögulegar og hverjar ekki. Í síðustu grein ritrýnda hlutans fjallar Ágústa Þorbergsdóttir um könnun sem hún gerði á viðhorfum fagfólks á fjármálasviði til íðorða og íðorðastarfs.
Í óritrýnda hluta heftisins fer Svavar Sigmundsson yfir gælunöfn sem koma fyrir í ættartölusafnriti Þórðar Jónssonar í Hítardal frá 1645–1660. Svavar segir m.a. að ættartölusafnritið gefi vísbendingar um að gælunöfn hafi verið mun algengari en manntöl og opinber skjöl gefi til kynna. Jóhannes B. Sigtryggsson fjallar svo um notkun skástrika í íslensku.
Á eftir fræðilega hluta heftisins má finna þrjár málfregnir: Jóhannes B. Sigtryggsson fjallar um nýjan vef Íslenskrar stafsetningarorðabókar, Halldóra Jónsdóttir og Þórdís Úlfarsdóttir kynna stafræna útgáfu Blöndalsorðabókar og Emily Lethbridge segir stuttlega frá nýrri vefsíðu sem veitir aðgang að skjölum úr örnefnasafni stofnunarinnar, nafnið.is. Að lokum eru svo ritfregnir þar sem fjallað er um nýlegar útgáfur á áhugasviði tímaritsins.
Tímaritið er aðgengilegt öllum á vefsíðu Orðs og tungu. Áskrift að prentaðri útgáfu heftisins má panta hjá Bóksölu stúdenta (orders@boksala.is).