Kallað er eftir erindum á málþing um kennslu í íslensku sem öðru og erlendu máli og menningu við háskóla í heiminum á tímum COVID-19-faraldursins sem haldið verður í Norræna húsinu 20. júlí nk. Málþingið er haldið í blönduðu formi á vegum Rannsóknarstofu í máltileinkun (RÍM) við hugvísindasvið Háskóla Íslands og Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Skráðir þátttakendur fá krækju á Zoom sem gerir þeim kleift að taka þátt í umræðutíma kl. 13.30−15.30 að íslenskum tíma á netinu. Umræðan fer fram í stóra salnum í Norræna húsinu og er hámarksfjöldi þátttakenda 50 manns.
Erindi skulu vera í formi fyrirlestra eða kynninga á efni sem fjallar um eitt eða fleiri af eftirfarandi þáttum þó að þessi listi sé ekki tæmandi:
- áskoranir í samfélagi á tímum COVID-19-faraldursins og breytt starfsumhverfi kennara,
- viðbrögð skólans við breytingum vegna COVID-19,
- breytingar á fyrirkomulagi í kennslu og starfi kennara og ný vinnubrögð,
- tæknilegar áskoranir í starfi og kennslu,
- notkun mismunandi aðferða í kennslu og prófum,
- skipulagning viðburða sem tengjast kennslu í máli og menningu á tímum faraldurs,
- hvatningar í námi nemenda í breyttu náms- og kennsluumhverfi,
- viðbrögð nemenda við breyttri kennslu,
- hvaða lærdóm getum við dregið af kennslu á tímum faraldurs?
Stutt lýsing á erindi (50 orð) sendist rafrænt við skráningu á málþingið hér.
Frestur til að senda inn erindi er til 7. júlí nk.
Upptökur erinda verða vistaðar á vefsíðu málþingsins svo að hægt sé að skoða þær fyrir fram. Þátttakendur taka þátt í skipulögðum umræðutíma 20. júlí kl. 13.30−15.30 að íslenskum tíma þar sem meginatriði erinda verða rædd.
Hvert erindi eða kynningu þarf að taka upp fyrir fram í formi myndbands (10 mín. að hámarki) og senda rafrænt til branislav.bedi@arnastofnun.is. Upptökur verða vistaðar á vefsíðu málþingsins og öllum aðgengilegar. Hægt er að óska eftir að taka erindið af vefsíðunni að málþingi loknu.
Leiðbeiningar fyrir upptökur í forritinu Teams og Zoom:
- Hægt er að taka erindi upp í forritinu Teams með því að smella á „Meet now“ og „Start meeting“ og „Join now“ og velja úr frekari aðgerðum þegar smellt er á þrjá punkta efst á skjánum „Start recording“ og að erindinu loknu á „Stop recording“ sem er á sama stað. Hægt er að deila glærum á sama skjá með því að smella á pílu „Share content“ sem er efst á skjánum og velja skjá með glærum á. Smella þarf á „Stream“ og síðan á „Microsoft Stream“ til að komast til Stream-vefsíðunnar og þá þarf velja „Meetings“ til þess að finna upptökuna. Eftir það er hægt að deila upptökunni.
- Hægt er að taka erindi upp í Zoom með því að opna forritið, búa til viðburð í dagatali, opna viðburðinn og smella á „Record“ og velja t.d. „Record on this computer“ og síðan á „Stop recording“ að erindinu loknu. Upptakan í mp4-sniði er svo sjálfkrafa vistuð í viðkomandi Zoom-möppu í tölvunni.
Nánari upplýsingar um málþingið og aðstoð við upptökur veitir Branislav Bédi í tölvupósti branislav.bedi@arnastofnun.is eða í síma 7766380.