Skip to main content

Fréttir

Styrkir veittir úr Styrktarsjóði Áslaugar Hafliðadóttur

Starfsmenn og verkefni á vegum Árnastofnunar hlutu nýverið styrki úr Styrktarsjóði Áslaugar Hafliðadóttur.

Branislav Bédi, verkefnisstjóri á Árnastofnun, hlaut framhaldsstyrk til að vinna við gerð íslensk-þýskrar veforðabókar. Orðabókin er unnin í samstarfi við Háskólann í Vínarborg og verður öllum aðgengileg á vefnum án endurgjalds.

Halldóra Jónsdóttir og Þórdís Úlfarsdóttir, orðabókarritstjórar á Árnastofnun, hlutu styrk til að vinna að nýrri íslensk-enskri veforðabók sem verður aðgengileg á vefnum án endurgjalds. Töluverð nýjung felst í verkefninu en við gerð orðabókarinnar verður notast við máltæknilegar aðferðir og er þess vænst að þær muni hraða gerð orðabókarinnar. 

Eva María Jónsdóttir, verkefnisstjóri á Árnastofnun, hlaut styrk í samstarfi við Vini Árnastofnunar til að þróa orðaleikinn Spagettí. Leikurinn býður síma- og spjaldtölvunotendum upp á afþreyingu sem örvar íslenskan orðaforða en hann gengur út á að para saman samheiti. Orðaleikurinn verður öllum aðgengilegur án endurgjalds á vefnum.

Styrktarsjóður Áslaugar Hafliðadóttur var stofnaður við Háskóla Íslands árið 2014 til minningar um Áslaugu Hafliðadóttur og foreldra hennar, þau Sesselju Eiríksdóttur og Hafliða Jón Hafliðason. Meginmarkmið sjóðsins er að efla íslenska tungu með styrkjum til sérverkefna á sviði íslenskra fræða.