Í íslensku eru orðin skúr í merkingunni ‘(stutt) rigningardemba’ og skúr í merkingunni ‘(lítil og einföld) bygging’ samhljóma sem kallað er – þau eru borin eins fram og hafa sömu ritmynd en gjörólíka merkingu. Í orðabókum eru þau að jafnaði talin tvö uppflettiorð og skýrð í aðskildum orðabókargreinum. En það er ekki einungis merkingin sem greinir á milli þeirra heldur er annað þeirra kvenkynsorð í máli flestra en hitt karlkynsorð og þau beygjast í samræmi við það. Samkvæmt Íslenskri orðsifjabók Ásgeirs Blöndal Magnússonar (1989) eiga orðin sér ólíkan uppruna og sögu. Orðunum er lýst þannig í Íslenskri nútímamálsorðabók.
Þótt þessi lýsing eigi við um málnotkun þorra landsmanna er málið ekki alveg svona einfalt. Sumir málnotendur hafa nefnilega skúr um rigningu í karlkyni rétt eins og þegar það vísar til byggingar. Í máli þeirra fellur því beyging orðanna saman:
Skúr 1:
- Bjart lengst af en dálitlir skúrar (kk.) síðdegis
- Tjaldið blotnaði í skúrnum (kk.)
Skúr 2:
- Það stóðu nokkrir lélegir skúrar bak við húsið
- Þau geymdu verkfærin í skúrnum
En ekki nóg með þetta því að það eru líka dæmi um málnotendur sem hafa bæði orðin í kvenkyni og tala þá um skúrina hvort sem þeir eiga við rigningu eða byggingu. Kvenkyn um byggingu er þó líklega ekki eins útbreitt og karlkyn um rigningu. Í Íslensk-danskri orðabók Sigfúsar Blöndal (1920–24) er báðum þessum tilbrigðum lýst:
Þarna kemur fram að skúr í merkingunni ‘rigningardemba’ sé kvenkyns á Suðurlandi og Vestfjörðum (og þá væntanlega líka á Vesturlandi þótt það sé ekki tekið fram) og hafi þá endingarnar -ar (þ.e. skúrar í eignarfalli eintölu) og -ir (þ.e. skúrir í nefnifalli fleirtölu) en karlkyns á Austfjörðum og Norðurlandi með endingarnar -s (skúrs) og -ar (skúrar) í sömu föllum. Hér er með öðrum orðum gert ráð fyrir að dreifing afbrigðanna sé svæðisbundin, að kynið sé breytilegt eftir mállýskum.
Söfn Orðabókar Háskólans, sem nú eru varðveitt og rekin af Árnastofnun, geyma miklar heimildir um orð og orðanotkun í íslensku og þau gætu því verið til þess fallin að skýra myndina eða að minnsta kosti staðfesta þá mynd sem blasir við hjá Sigfúsi Blöndal. Í svonefndu ritmálssafni eru dæmi um nálægt 700 þúsund uppflettiorð úr rituðum textum, þau elstu frá 16. öld. Þar eru 66 dæmi um skúr í karlkyni og 75 dæmi um skúr í kvenkyni. Einungis helmingur dæmanna eða ríflega það sýnir kyn orðsins á óyggjandi hátt. Sé eingöngu tekið tillit til þeirra dæma og þau flokkuð eftir merkingu sést að í tæpum þriðjungi dæma um rigningu er orðið karlkyns og kvenkyn því ríkjandi og öfugt í dæmum þar sem orðið vísar til byggingar þar sem það er bara kvenkyns í tæplega 20% tilvika. Samkvæmt þessu sýnir lýsingin í Íslenskri nútímamálsorðabók ljóslega ríkjandi málnotkun en þar er ekki farið út í tilbrigði í kyni.
Talmálssafnið er annars eðlis. Það geymir umsagnir málnotenda um orð og orðanotkun í daglegu máli þeirra sjálfra eða í þeirra nánasta umhverfi. Upplýsingarnar bárust oft í kjölfar fyrirspurna frá starfsfólki orðabókarinnar og eru af ýmsu tagi – merking orða og orðasambanda, málfræðilegir eiginleika þeirra, samhengið sem þau eru notuð í, framburður o.s.frv. Við efnissöfnunina var sjónum ekki síst beint að tilbrigðum í máli og staðbundnum orðum, orðanotkun og merkingu. Þetta safn er því líklegt til að varpa skýrara ljósi á það hvernig dreifingu karlkyns og kvenkyns af orðinu skúr í hvorri merkingu um sig er háttað. Í safninu eru 45 umsagnir um orðið í merkingunni ‛rigningardemba’. Það eru nokkurn veginn jafnmörg dæmi um hvort kyn og súluritið sýnir landfræðilega dreifingu þeirra. Á Suðurlandi, Vesturlandi og Vestfjörðum virðist kvenkyn einhaft miðað við umsagnir en á Austur- og Norðurlandi er karlkynið ríkjandi. Sumir heimildarmenn geta þess í umsögnum sínum að það hafi verið enn útbreiddara áður en kvenkynið hafi síðar tekið að sækja á og það er a.m.k. vel þekkt um norðan- og austanvert landið. Þessar heimildir staðfesta þá dreifingu sem lýst var í orðabók Sigfúsar Blöndal.
Loks má nefna beygingartilbrigði sem sjá má í söfnunum en er hvergi lýst í orðabókum. Í dæmum koma fyrir tvær karlkyns fleirtölumyndir orðsins skúr um rigningu, skúrar (með greini skúrarnir; þf. skúra), sem er sú beyging sem gert er ráð fyrir í orðabók Sigfúsar Blöndal og reyndar líka í Íslenskri orðabók (2002), og einnig skúrir (með greini skúrirnir; þf. skúri).
Mun færri umsagnir eru um orðið í merkingunni ‛bygging’, einungis ellefu, og þær skiptast nokkuð jafnt milli kynja. Dæmi úr hverjum landshluta eru of fá til að gefa skýra mynd af dreifingu um landið en þegar rýnt er í gögnin kemur hins vegar í ljós að dæmi um kvenkyn eru að langmestu leyti bundin Vestfjörðum – eitt er frá heimildarmanni í Reykjavík og ekki útilokað að hann hafi haft tengsl vestur þótt það komi ekki fram í umsögninni.
Vestfirsku dæmin fjögur eru öll af svipuðum slóðum – úr Ísafjarðardjúpi, Önundarfirði og Dýrafirði (eins og heimild Sigfúsar Blöndal). Þótt ritmálssafnið sé almennt ekki góð heimild um landfræðilega útbreiðslu orða vekur athygli að þau fjögur dæmi sem þar eru um kvenkyn í merkingunni ‛bygging’ eru öll úr vestfirskum ritum svo að þau styrkja enn þá mynd að kjarnasvæði afbrigðisins séu Ísafjarðarsýslurnar.
Ofangreindar heimildir um útbreiðslu afbrigðanna eru allar komnar til ára sinna. Það er því ekki óeðlilegt að spyrja: Gefa þessar heimildir rétta mynd af tilbrigðum í samtímanum? Út frá þróun mállýskuafbrigða almennt er líklegra að útbreiðsla minnihlutaafbrigða – í þessu tilviki karlkyns af skúr ‛rigningardemba’ og kvenkyns af skúr ‛bygging’ – skreppi saman eða þau hverfi en að þau sæki á þótt um það sé erfitt að fullyrða nema með ítarlegri rannsókn. Eigi að síður er tiltölulega auðvelt að finna merki um bæði þessi afbrigði. Það þarf ekki annað en leggja eyrun við veðurfréttum, þar sem rigningarskúrir ber óhjákvæmilega oft á góma, til þess að heyra að orðið kemur þar ýmist fram í kvenkyni eða karlkyni þótt kvenkyn sé þar líklega algengara. Einnig er frekar auðvelt að finna dæmi um notkun kvenkynsorðsins um byggingu eða umræður um það. Flest eða öll virðast þau eiga rætur á Vestfjörðum. Sem dæmi má nefna að á Flateyri við Önundarfjörð er starfrækt samfélagsmiðstöðin Skúrin og í vestfirskum blöðum má sjá ýmsar myndir af nafninu, allar greinilega í kvenkyni: Skúrinni, Skúrarinnar.
Síðast breytt 10. febrúar 2025