Fyrir 69 árum var efnt til óvenjulegrar samkeppni hér á landi. Fyrir henni stóð Samband íslenskra samvinnufélaga. Þar var almenningi gefinn kostur á leggja til orð, eða mæla með orði, sem hafa mætti um ákveðna nýjung í verslunarháttum hjá Sambandinu: sjálfsafgreiðslubúðir.
Í október 1951 var sagt frá nýjunginni í Samvinnunni undir fyrirsögninni „Sjálfafgreiðslubúðir. Verzlunaraðferð, sem breiðist ört út í Evrópu, en hefur þegar farið sigurför um Ameríku“. Var fyrirbærið útskýrt fyrir lesendum á þá leið að um væri að ræða búðir „þar sem viðskiptamenn geta sjálfir gengið að vörunum í hillum verzlunarinnar, tínt saman í körfu allt það, sem þeir vilja fá, og greitt vöruna við dyrnar á leiðinni út.“
Með fylgdi teikning af kaupfélagsbúð í Ósló til frekari skýringar á hinni byltingarkenndu nýjung.
Í Samvinnugreininni 1951 kom einnig fram að hérlendis hefði verið
„gerð tilraun með sjálfafgreiðsluverzlun fyrir allmörgum árum, og var það KRON, sem tilraunina gerði í húsnæði við Vesturgötu. En sú tilraun þótti ekki takast, og var horfið frá því að hafa þetta nýja fyrirkomulag á verzluninni. Þó er ástæða til að ætla, að slík tilraun mundi fara á annan veg nú, enda hafa miklar breytingar orðið á verzlunarháttum landsmanna og hugsunarhætti fólksins.“
Fjórum árum síðar, 1955, stóð Samband íslenskra samvinnufélaga fyrir þeirri orðasamkeppni sem nefnd var hér á undan. Úrslitin voru kynnt í nóvemberblaði Samvinnunnar 1955. Mikið lá við að greina starfsmönnum Sambandsins, og öðrum lesendum, sem fyrst frá úrslitunum og voru niðurstöðurnar kynntar bæði í grein framarlega í blaðinu og einnig aftar, á sérstakri fréttasíðu þar sem sagði:
„Um það bil, sem blaðið var að fara í prentun, voru gerð kunn úrslit í keppni um orð yfir sjálfsafgreiðsluverzlanir (sem svo hafa verið nefndar). Heitið Kjörbúð fann náð fyrir augum dómnefndar og verður notað framvegis.“
Í dómnefndinni höfðu setið Þorkell Jóhannesson háskólarektor, Halldór Halldórsson dósent og Benedikt Gröndal ritstjóri.
Í fréttinni má sjá orðalagið hljóta náð fyrir augum dómnefndar sem fréttaunnendur í dag þekkja mætavel og ekki síst í reglulegum frásögnum af úrskurðum mannanafnanefndar þar sem algengt er að vísa í náðina sem nafn hafi hlotið, eða ekki hlotið, fyrir augum nefndarinnar.
Í Samvinnunni var sagt nánar frá kjörbúðar-úrslitunum:
„KJÖRBÚÐ var hið dýra orð, sem prófessorarnir og ritstjórinn völdu úr aragrúa af tillögum. Ekki er við því að búast, að öllum líki við fyrstu sýn. En dómararnir vöfðu þessu orði og tugum annara um tungur sér í nokkrar vikur, og þeir voru umræðulítið sammála um valið. Orðið er ramm-íslenzkt og í því sterk og þróttmikil hljóð. Merking þess getur á tvennan hátt átt við umræddar verzlanir: Þar kjósa menn vörur, og þetta eru fyrirmyndar búðir, kjörbúðir, sbr. kjörgripir. Er svo eftir að sjá, hvort almenningur vill, eftir nánari kynni, fella sig við þetta nýja orð, en vonandi fer svo.“
Í frétt um úrslitin í Degi 23. nóvember 1955 kom fram að 65 manns hefðu lagt til orðið kjörbúð. Því hefði þurft að draga um 5.000 króna verðlaunin sem heitið hefði verið til handa þeim sem sendu inn vinningstillögu. Kunna verðlaunin að hafa átt sinn þátt í góðri þátttöku; dómnefndinni bárust tæplega 700 bréf með hátt í 3.000 tillögum.
Orðið kjörbúð var þá raunar ekki algjör nýlunda (hefur þó e.t.v. ekki endilega átt við nákvæmlega sömu verslunartegund og Sambandið var að innleiða). Í dálki Hannesar á horninu í Alþýðublaðinu, 25. apríl 1951, segir umsjónarmaður að „húsmóðir“ hafi skrifað sér, á þessa leið:
„Ég kom í kjörbúð í gær. Þar var verið að selja bein, nautabein. Hvað heldur þú að kílóið hafi kostað af beinunum? Það kostaði 16 krónur. Margt hefur maður fengið að reyna í verzlununum upp á síðkastið. En þetta tekur að ég held út yfir allan þjófabálk.“
Raunar kom hljóð úr horni í sama dálki í Alþýðublaðinu 27. nóvember 1955 um niðurstöðu orðasamkeppninnar sem þá var nýkomin í ljós. Þar skrifar „Áhugasamur“ og er ekki alls kostar sáttur við úrslitin enda hefði verið nær að velja orðið valbúð, „miklu betra nafn en Kjörbúð, enda mun valbúðarnafnið vinna sigur þegar tímar líða“. Í leiðinni fær dómnefnd menntamannanna pillu:
„Sem stendur man ég eftir þremur nýyrðum, sem mikið var rætt um á sínum tíma – og öll hafa nú sigrað. Þau eru: „Götuvitar“, „biðstöð“ og „skellinaðra“. Í þessu efni dæmdi almenningur sjálfur.“
Í tímaritinu Iðnaðarmálum var sagt frá því árið 1966 að fyrst hafi verið gerð tilraun með kjörbúð á Íslandi árið 1942. Ef til vill var þar um að ræða þá tilraun hjá KRON á Vesturgötunni sem getið var um framar í pistlinum. En þráðurinn var sýnilega tekinn upp að nýju á sjötta áratugnum, eins og orðasamkeppnin 1955 ber með sér.
Virðast kjörbúðirnar hafa átt bærilegu gengi að fagna ef marka má frásögn í Iðnaðarmálum árið 1957 þar sem segir:
„hér á landi eru starfandi 30 sjálfsafgreiðsluverzlanir, sem öðru nafni eru nefndar kjörbúðir“.
Það vekur athygli í textanum að lesendum Iðnaðarmála árið 1957 virðist e.t.v. ekki hafa verið treyst fyllilega til að skilja orðið kjörbúð án þess að nefna í leiðinni orðið sjálfsafgreiðsluverslun (nema höfundur textans hafi átt erfitt með að sætta sig við sigurvegarann, kjörbúð, og af skömmum sínum viljað endilega minna á hitt orðið).
Eftir að úrslitin um kjörbúð voru gerð heyrinkunn í nóvember 1955 verður ekki annað sagt en að Tjarnarbíó hafi verið með á nótunum. Í Vísi 29. nóvember auglýsti bíóið kvikmyndina Gripdeildir í kjörbúðinni, á frummálinu Trouble in the store; „Bráðskemmtileg ensk gamanmynd, er fjallar um gripdeildir og ýmiskonar ævintýri í kjörbúð“. „Þetta er mynd, sem allir þurfa að sjá.“
Síðast breytt 3. desember 2024