Umhverfismál hafa verið áberandi í umræðunni undanfarin ár og teljast meðal brýnustu málefna samtímans. Fjölmiðlar hafa ítrekað vakið athygli á þessum málum og hvatt til aðgerða og endurspeglar það vaxandi áherslu samfélagsins á að takast á við þessar áskoranir. Fjölmörg nýyrði gegna mikilvægu hlutverki í umræðu um umhverfismál, meðal annars í tengslum við neysluvenjur, úrgang, loftslagsmál og samfélagslega ábyrgð. Hér á eftir verður fjallað um nokkur þeirra.
Matarsóun, gámagrams og frískápur
Nýyrðin matarsóun, gámagrams og frískápur tengjast umhverfismálum með því að varpa ljósi á mikilvægi nýtingar auðlinda, minnkun úrgangs og ábyrgð í neysluvenjum.
Orðið matarsóun (e. food waste) kom fram fyrir áratug í umræðu um hversu miklum mat er hent sem hefur víðtæk áhrif á vistkerfi jarðar. Orðin gámagrams og frískápur tengjast beint baráttunni gegn matarsóun.
Gámagrams, sem kom fram árið 2018, er íslensk þýðing á dumpster diving og vísar til þess að taka mat úr gámunum við matvöruverslanir. Tilgangurinn er að koma í veg fyrir matarsóun þar sem ætilegum mat er oft hent vegna þess að síðasti söludagur er liðinn eða umbúðir skemmdar. Orðið ruslarót hefur einnig verið notað um þetta fyrirbæri.
Elsta heimild um orðið frískápur (myndað úr frír + ísskápur, sbr. ensku freedge – samsett úr free og fridge) er frá árinu 2021. Orðið er notað um ísskáp sem er komið fyrir í almannarými þar sem fólk getur skilið eftir mat sem það þarf ekki og tekið mat sem það getur nýtt. Markmiðið er að minnka sóun, efla samvinnu og stuðla að samfélagslegri ábyrgð. Orðið samfélagskælir hefur einnig verið notað um þessa ísskápa.
Örplast og plokka
Plast og annað rusl frá neyslusamfélagi nútímans endar oft sem mengun í fjörum og jafnvel á afskekktum svæðum eins og í Eldey.[i] Nýyrðið örplast (e. microplastics) kom fram á síðasta áratug og er notað um plastagnir sem finnast víða í náttúrunni og skaða lífríkið. Örplast hefur orðið að alvarlegum umhverfisvanda vegna þess að mjög erfitt er að fjarlægja það úr náttúrunni.
Orðið plokka var valið orð ársins 2018: Þetta er gamalt íslenskt orð sem fengið hefur nýja merkingu en er um leið tökuorð úr erlendu máli. Að plokka merkir að tína upp rusl meðan gengið er eða skokkað. Þannig sameinar fólk umhverfisvernd og heilsusamlegt líferni. Siðurinn á uppruna sinn í Svíþjóð þar sem þetta kallast plogga, myndað úr orðunum plocka (tína upp) og jogga (skokka).
Hamfarahlýnun
Elsta heimildin um orðið hamfarahlýnun er frá 2013 í grein í Fréttablaðinu[ii] þar sem varað var við alvarlegum loftslagsbreytingum sem gætu orðið ef óunnið kolefniseldsneyti væri nýtt í miklum mæli. Orðið, sem er bæði tilfinningaþrungið og áhrifarík lýsing á áhrifum loftslagsbreytinga af mannavöldum, varð fljótt áberandi í opinberri umræðu og fjölmiðlum. Árið 2019 var það valið orð ársins, bæði af Árnastofnun og Ríkisútvarpinu, sem endurspeglar mikilvægi þess í orðræðunni um loftslagsmál.
Loftslagsorð – frá baráttu til efasemda[iii]
Tugir nýrra samsettra orða, með fyrri liðinn loftslags-, hafa komið fram og tengjast á ýmsan hátt loftslagsbreytingum og viðbrögðum við þeim. Mörg þessara orða sýna vaxandi meðvitund og aðgerðir í samfélaginu til að takast á við loftslagsvandann svo sem: loftslagsaðgerðir, loftslagsaktívisti, loftslagsáhrif, loftslagsáætlun, loftslagsbarátta, loftslagskvíði, loftslagskvótakerfi, loftslagsverkfall, loftslagssamviskubit og loftslagssekt.
Hér má einnig sjá orð sem endurspegla þá skoðun að loftslagsvandinn sé fyrst og fremst pólitískur og hugmyndafræðilegur tilbúningur: loftslagsheilaþvottur, loftslagshlýnunarþvarg, loftslagshystería, loftslagskjaftæði, loftslagsmóðursýki, loftslagsofstæki, loftslagsprumpsáttmáli, loftslagsrugl, loftslagssvindl og loftslagsöfgafólk.
Hvaða gildi hafa nýju orðin?
Umhverfismál eru oft nefnd meðal mikilvægustu málefna samtímans. Á síðustu árum hefur fjöldi nýyrða bæst við orðaforðann sem gegna lykilhlutverki í mótun orðræðunnar um þessi málefni. Nýyrðin hjálpa fólki að tjá sig um nýjar aðstæður og breyta jafnvel því hvernig málefnin eru rædd og skilin. Þau eru því ekki aðeins orð heldur einnig verkfæri sem auðvelda miðlun hugmynda og stuðla að sameiginlegum skilningi.
Nýyrði eins og matarsóun og örplast hafa ekki aðeins auðveldað umræðu um umhverfismál heldur einnig mótað hugsun og orðræðu samfélagsins. Mörg þessara orða eiga sér erlendar fyrirmyndir en ekki öll. Ýmsar samsetningar með loftslags- í fyrri lið eru dæmi um virka orðmyndun þar sem orð verða til vegna þess að sá sem myndar þau finnur fyrir þörf fyrir ákveðna tjáningu á tilteknum tíma og stað. Þótt mörg slík orð gleymist fljótt og komist ekki í orðabækur eru þau engu að síður mikilvæg fyrir orðræðu augnabliksins.
Afstaða fólks til loftslagsmála birtist oft í orðavali. Hamfarahlýnun og loftslagsmóðursýki eru bæði gildishlaðin og tilfinningaþrungin orð. Fyrra orðið lýsir áhyggjum af loftslagsbreytingum en það síðara er notað til að draga í efa alvarleika þeirra.
Nýyrði á borð við umhverfisorðin, sem hér hefur verið fjallað um, eru dæmi um hvernig nýr veruleiki getur af sér ný orð sem verða ómissandi í umræðu um málefni samtímans.
[i] Ástrós Signýjardóttir. (2025, 1. janúar). Fundu mikið plast í Eldey.
[ii] Ari Trausti Guðmundsson. (2013, 1. júní). Nýja sýn á norðrið.
[iii] Heimildir um þessi orð eru úr Risamálheildinni og Útvarpi Sögu.
Síðast breytt 7. janúar 2025