Skip to main content

Pistlar

Haggahnúkur

Þetta forvitnilega örnefni er að finna í landi Snartartungu í Bitrufirði í Strandasýslu. Hagga-örnefni eru á nokkrum öðrum stöðum í gamla Vestfirðingafjórðungi. Við leit í örnefnasafni Árnastofnunar með hjálp leitarvélar á vefnum nafnið.is fundust þessi dæmi:

Hagga-örnefni eru kennd við Högg í fleirtölu og er því um óvenjulega beygingu að ræða því að yfirleitt beygist no. högg svo:

  Eintala Fleirtala
Nf. högg högg
Þf. högg högg
Þgf. höggi höggum
Ef. höggs högga

Í dæmunum að ofan kemur eignarfallið Hagga fyrir sem fyrri liður í samsettu örnefni. Einnig er til a.m.k. eitt dæmi um að ósamsett nafn sé beygt svo í eignarfalli fleirtölu. Í örnefnaskrá Hraundals í Nauteyrarhreppi í Norður-Ísafjarðarsýslu koma fyrir nöfnin Fremsta-, Mið- og Efsta-Högg. Í texta lýsingarinnar segir: „Á milli Hagganna heita Hornlágar, lautir á milli þeirra“.

Nafnorðið högg er hvorugkynsorð af svonefndum va-stofni (í fornmáli höfðu slík orð v á undan endingum sem hófust á i eða a, þ.e. þgf. et. Hǫggvi og ef. flt. hǫggva). Það hefur venjulega u(v)-hljóðvarp í öllum beygingarmyndum. Myndin Hagga- í eignarfalli fleirtölu ber með sér að farið sé með orðið eins og nafnorð úr flokki a-stofna, t.a.m. barn eða hall ‘halli, brekka’.

  Eintala Fleirtala
Nf. barn, hall börn, höll
Þf. barn, hall börn, höll
Þgf. barni, halli börnum, höllum
Ef. barns, halls barna, halla

Í dæmunum að ofan eru Hagga-örnefni leidd af nafninu Högg í fleirtölu. En það er einnig notað í eintölu, sbr. t.a.m. Efsta- og Fremstahögg í landi Hraundals í Nauteyrarhr. N-Ís. Ekki hef ég þó getað fundið dæmi um eintöluna *Hagg (sbr. barn og hall) og raunar ekki heldur afleidd örnefni með reglulegum fyrri lið, Högga-.

Samkvæmt Íslenskri orðabók hefur högg í örnefnum merkinguna ‘(kletta)horn eða stallur í fjallshlíð, klettabrún’. Vitað er um nokkra tugi slíkra nafna sem eru bundin við norðvesturhluta landsins. Ég hef aðeins fundið eitt dæmi utan svæðisins frá Snæfellsnesi til Skagafjarðar, það er í landi Stardals í Kjalarneshreppi.

Algengt er að orðliðir í örnefnum séu frábrugðnir samsvarandi samnöfnum í beygingu og orðmyndun. Þrjú dæmi af handahófi eru 1) eignarfallið Björkur af bæjarnafninu Björk (í Sandvíkurhreppi, Árn.; 2) Bergjalaut sem leitt er af fleirtölunafninu Berg og 3) Græfrur sem samsvarar fleirtöluorðinu græfur ‘gil, lautir’ (skv. Íslenskri orðabók), sbr. örnefnið Græfur, sem virðist að uppruna óvenjuleg fleirtölumynd af gróf. Fleiri dæmi af svipuðum toga má finna í doktorsritgerð Jans Nilsons (Plurala ortnamn på Island, Umeå, 1975) og í greininni „Um Moldhaugnaháls út í Fjósa og Fjörður“ eftir Harald Bernharðsson sem birtist í 26. hefti Íslensks máls.

Birt þann 17. desember 2024
Síðast breytt 17. desember 2024