Tímarnir breytast og orðin í tungumálinu endurspegla það. Íslensk nútímamálsorðabók (ÍNO) fær reglulega uppfærslur sem felast meðal annars í því að bæta við nýjum orðum. Einnig kemur fyrir að orð sem eru fyrir í orðabókinni fá nýja merkingu. Hlutverk ÍNO er að lýsa tungumálinu, fræða notendur um hvað orðin þýða og hvernig þau koma fyrir í setningum. En ný orð eru samt ekki tekin inn í orðabókina athugunarlaust. Stundum komast ákveðin orð í tísku og sum þeirra hverfa aftur úr virkri notkun eftir tiltekinn tíma. Sum nýrra orða rata í ÍNO en önnur ekki.
Hentugt verkfæri til að rannsaka íslensk orð og nálgast viðbótarorðaforða er svonefnd Risamálheild sem er eitt af gagnasöfnum Árnastofnunar. Risamálheildin er textasafn með um 2,5 milljörðum orða og er hún aukin árlega. Á vef Risamálheildarinnar er hægt að skoða aldur orðanna og útbreiðslu, sem og þær tegundir texta sem orðin koma helst fyrir í.
Hvaða orð eiga heima í orðabók og hver ekki er mat ritstjórnar. Ekki er talið nauðsynlegt að hafa sum algeng orð í orðabók, til dæmis þriðjudagskvöld (þau myndu kalla á öll sjö kvöld vikunnar) og septembermorgunn (sem myndi kalla á samstætt knippi af tólf orðum, og fleiri ef samsvarandi kvöld væru tekin með). ÍNO er ekki orðabók af þeirri gerð þar sem reynt er að safna saman sem flestum orðum, eins konar alltumlykjandi geymsla yfir orðaforðann fyrr og nú. Slíkar sögulegar orðabækur hafa víða erlendis verið gefnar út í mörgum stórum bindum, m.a. ensk, dönsk og sænsk orðabók.
Mörg þeirra orða sem hafa bæst við orðabókina á undanförnum árum eru fengin úr Risamálheildinni en þau eru þó ekki endilega ný í málinu. ÍNO er meðalstór orðabók sem hefur ekki að geyma öll íslensk orð og þar af leiðandi eru óhjákvæmilega göt í orðaforðanum. Viðbætur við orðabókina eru oft gerðar til að stoppa í þessi göt, bæði hvað varðar sjálf uppflettiorðin en einnig merkingar sem kann að vanta.
Öllum 56 þúsund orðunum er skipt í merkingarsvið, en þau eru t.d. 'vinna', 'vopn', 'hústegund' og 'atvinnustarfsemi'. Fyrir nokkrum árum var ÍNO stækkuð um 12 prósent. Margir merkingarflokkar fengu einhverjar viðbætur en sumir voru stækkaðir mikið. Dæmi um flokka sem aukið var í eru 'skóli', 'matur', 'læknisfræði' og 'tónlist'.
Viðbótarorð í merkingarflokknum 'skóli' eru m.a. skólabúningur, skóladót, starfsnemi, framhaldsstig, grunnmenntun, valáfangi, íslenskukennsla og læknanám.
Viðbótarorð í merkingarflokknum 'matur' eru m.a. andabringa, barnaréttur, baunaspíra, graskersfræ, kíafræ, hvítlauksolía og hýðishrísgrjón.
Viðbótarorð í merkingarflokknum 'læknisfræði' eru fæðuofnæmi, háfjallaveiki, heimsfaraldur, lungnateppa, ebóla og gigtarsjúkdómur.
Sum ofangreindra orða eru sannarlega ekki ný í málinu og getur notandinn spurt af hverju þau voru ekki fyrir löngu komin inn í orðabókina. Fyrir því eru ýmsar ástæður sem ekki verður farið út í hér. En til að ná utan um orðaforðann þarf að gera sérstakar ráðstafanir og til þess eru notuð tæki eins og áðurnefnd Risamálheild.
Ritstjórar ÍNO eru Halldóra Jónsdóttir og Þórdís Úlfarsdóttir.
Síðast breytt 3. september 2024