Fyrra bindi þjóðsagnasafns Jóns Árnasonar, Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri, kom út árið 1862 – og það sama ár fæddist Ólafur Davíðsson í Felli í Sléttuhlíð í Skagafirði. Hann var sonur prestshjónanna þar, Davíðs Guðmundssonar og Sigríðar Ólafsdóttur, en Jón Árnason var einmitt móðurbróðir Davíðs. Ólafur átti þannig ef til vill ekki langt að sækja áhugann á þjóðlegum fróðleik og hann segist hafa lesið „Þjóðsögurnar spjaldanna á milli, upp aptur og aptur á kornúngum aldri“ (ÍGSVÞ II 4).