Skip to main content

Pistlar

Reyfi hrútsins og kynlífskápan

Í hinu vel þekkta íslenska ævintýri Sagan af Mjaðveigu Mánadóttur sem heyrir til alþjóðlegu ævintýragerðarinnar ATU 510: Öskubusku er að finna áhugaverða vísu sem margir Íslendingar kannast við. Þar er sagt um leyniskemmu Mjaðveigar:

Þá gala gaukar
og þá spretta laukar
og þá fer hrútur úr reyfi sínu.

Um merkingu vísunnar er lítið vitað en Einar Ól. Sveinsson taldi að hún ætti rætur að rekja til miðalda og sýndi fram á að svipaðar vísur hafa einnig þekkst á öðrum Norðurlöndum. Hlutverk gaukanna í vísunni virðist vera kunnugt, enda eru það fuglar (væntanlega gaukarnir) sem benda kóngssyninum á að hann hafi hina röngu Mjaðveigu í stafninum og að skór hennar sé fullur af blóði. Merking „hrútsins í reyfinu“ liggur hins vegar ekki ljós fyrir og þarfnast frekari athugunar.

Valur Ingólfsson

Ævintýrið um Mjaðveigu er prentað í þjóðsagnasafni Jóns Árnasonar og var skrásett á 19. öld. Til er eldra tilbrigði sögunnar sem höfundurinn Eiríkur Laxdal notaðist við í Ólandssögu frá lokum 18. aldar. Í Ólandssögu segir um hrútinn að hann hafi verið í eigu kóngsdótturinnar Mjaðveigar og að hann hafi farið úr reyfi sínu fjórum sinnum á ári og að reyfið hafi skipt um lit. Á vorin var það blátt, en grænt um sumar, rautt að hausti til og gult á veturna. Lýsingin á sér hliðstæðu í riddarasögunni Samsons sögu fagra frá 14. öld, en þar er hrúturinn sagður vera „með öllum litum, gulls og silkis, klæðis og kolors. Hann kastaði reyfinu þrisvar sinnum á hverju ári.“ Reyfið er síðan notað við gerð sérstakrar kápu eða skikkju sem er þeirrar náttúru að upplýsa karlmenn um framhjáhald eiginkvenna sinna. Kápan er þá ýmist of stutt eða of síð sem fer eftir kynlífshegðun þeirra kvenna sem máta möttulinn hverju sinni. Samsons saga samsvarar að þessu leyti Möttuls sögu, þar sem kynlífskápan gegnir hlutverki við hirð Artúrs konungs. Möttuls saga er þýðing á bretónsku ljóðsögunni Le Mantel mautaillié frá 12. öld; Skikkjurímur voru samdar út frá sama efni.

Í Möttuls sögu er kápunni lýst sem svo að hún sé gerð úr silki, öll gulli ofin og rauð að innan. Einungis ein kona við hirð Artúrs reyndist unnusta sínum trú, þar sem hún passar fullkomlega í kápuna líkt og í Samsons sögu, þar sem kápan hæfir einungis hinni írsku konungsdóttur Valentínu. Kynlífskápan í Möttuls sögu og Samsons sögu fagra gegnir þar af leiðandi sambærilegu hlutverki og skórinn í ævintýrinu um Mjaðveigu Mánadóttur og Öskubuskuhefðinni almennt. Fræðimenn hafa haldið því fram að skórinn í Öskubuskusögunum auðkenni Öskubusku sem hreina mey en blóðið í skónum standi fyrir spilltan meydóm stjúpsystur Öskubusku sem sker hluta af fæti sínum af til að komast í skóinn. Einungis hin eina sanna passar í skóinn eða kápuna. Hrúturinn sem kastar reyfi sínu sem birtist okkur í lítilli vísu í ævintýrinu um Mjaðveigu hefur e.t.v. falið í sér tilvísun í eldri eða hliðstæða hefð, þar sem reyfi er notað í kápu sem gegndi sama hlutverki og skórinn, sem er þó orðinn eitt helsta einkenni Öskubuskusagna síðari tíma.

Birt þann 24. júní 2019
Síðast breytt 24. október 2023