Skip to main content

Pistlar

Þjóðsagnafræðingurinn Ólafur Davíðsson

Fyrra bindi þjóðsagnasafns Jóns Árnasonar, Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri, kom út árið 1862 – og það sama ár fæddist Ólafur Davíðsson í Felli í Sléttuhlíð í Skagafirði. Hann var sonur prestshjónanna þar, Davíðs Guðmundssonar og Sigríðar Ólafsdóttur, en Jón Árnason var einmitt móðurbróðir Davíðs. Ólafur átti þannig ef til vill ekki langt að sækja áhugann á þjóðlegum fróðleik og hann segist hafa lesið „Þjóðsögurnar spjaldanna á milli, upp aptur og aptur á kornúngum aldri“ (ÍGSVÞ II 4). Sögurnar höfðu mjög mikil áhrif á drenginn en hann sá fljótt að í þær vantaði flestar þær sögur sem „Steinvör gamla, svarta Sigga og aðrar sögukellíngar“ (ÍGSVÞ II 4)  í Sléttuhlíðinni kunnu og sögðu krökkunum og einnig allar þulur, gátur og leiki. Þess vegna fór Ólafur mjög snemma að skrifa upp það sem hann heyrði eða hafði heyrt og nóg var af efninu „því þá var nóg af sögukellíngum í Sléttuhlíð“ og Þorgeirsboli gekk ljósum logum þar um sveitina auk þess sem „það úði og grúði af huldufólki, bæði í Hrolleifshöfða og Fellinu, sem hvorttveggja er í landareign Fells“ (ÍGSVÞ II 4). Ólafur var ellefu ára þegar fjölskyldan flutti frá Felli að Hofi í Hörgárdal en hann hefur átt sterkar minningar um bernskustöðvarnar eins og sést í ritgerð hans „Hitt og þetta um sveitina mína og mig“ sem hann skrifaði þegar hann var kominn í Lærða skólann í Reykjavík (sjá Hundakæti, 6). Þar lýsir hann Sléttuhlíð og minnist á álagabletti í Hrolleifshöfða. Hvort Ólafur var þegar byrjaður að skrá sögur eftir fólki fyrir 11 ára aldurinn eða hvort hann skráði þær seinna eftir minni er erfitt að segja. Oftast kemur einungis fram að sagnirnar séu úr Sléttuhlíð en stundum nafngreinir Ólafur sagnafólk svo sem Solveigu Jónsdóttur og Níels Solveigarson. Nýlega hafa dagbækur Ólafs frá skólaárum hans í Reykjavík og Kaupmannahöfn verið gefnar út og í þeim minnist hann einstöku sinnum á þjóðsögurnar. Þann 17. apríl 1884 segist hann hafa skrifað „brjef til Jóns Benidiktssonar á Kappastöðum. Jeg bað hann að skrifa sögur upp úr Steinvöru gömlu og lofaði honum e-i þóknun fyrir ef hann yrði vel við bæn minni“ (Hundakæti, 205). Ekki er vitað hvort Jón varð við bæninni en aðeins ein saga í safni Ólafs er höfð eftir Steinvöru Jónsdóttur, húsfreyju á Kappastöðum í Sléttuhlíð, sagan af Fóu og Fóu feykirófu.

Ólafur hélt áfram að safna þjóðsögum úr ýmsum áttum og lítið úrval kom út 1895. Síðan birtist hvert safnið á fætur öðru sífellt stærra og efnismeira. Nýjasta útgáfan er frá 1978–1980 en þó hefur enn ekki verið gefið út þjóðsagnasafn Ólafs Davíðssonar þar sem beinlínis er farið eftir handritum hans. Flest þeirra eru nú varðveitt í handritasafni Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns undir safnmörkunum Lbs 3114–3118 4to, en nokkur hluti þeirra er í vörslu Árnastofnunar. Þau handrit afhenti Hulda Stefánsdóttir, systurdóttir Ólafs, Hallfreði Erni Eiríkssyni þjóðsagnafræðingi og eru þau í safni hans undir safnmarkinu SÁM 30c. Í þjóðsögum Ólafs er að finna sömu flokka sagna og í þjóðsögum Jóns Árnasonar en einn nýr flokkur bætist við: stórlygasögurnar sem oftast eru hafðar eftir söguhetjunum sjálfum, eins og sögur Jóns á Hrauni

Auk þjóðsagnanna safnaði Ólafur Davíðsson öðru því þjóðsagnaefni sem hann saknaði úr útgáfu Jóns frænda síns, gátum, þulum, kvæðum og lýsingum á leikjum og skemmtunum. Jón Árnason bauð Hinu íslenska bókmenntafélagi í Kaupmannahöfn safn sitt af íslenskum gátum, þulum og skemmtunum til útgáfu. Þá var Ólafur einmitt í Kaupmannahöfn og hefur greinilega frétt af boði Jóns. Hann skrifaði Jóni 13. janúar 1886 og segir m.a.:  „Nú er eg með því marki brenndur að eg ann engri fræði eins og þjóðtrúarfræði okkar Íslendinga og get aldrei þagað, þegar um hana er að ræða“ (Úr fórum II 281). Síðan stingur Ólafur upp á því að þeir skipti með sér verkum, hann sendi Jóni það sem hann hefur safnað af gátum og þulum og Jón sendi sér leikina í staðinn. Svarbréfið hefur ekki varðveist en af næsta bréfi Ólafs sést að Jón hefur samþykkt tillöguna. Pálmi Pálsson bókavörður og kennari í Reykjavík átti síðan að sjá um útgáfu á vikivakakvæðum og lýsingum. Það fór þó svo að nær allt þetta kom í hlut Ólafs. Pálmi hafði ekki tíma til verksins og sendi honum öll sín gögn og Jón lést árið 1888, en hafði þá gengið frá gátuhlutanum. Ólafur lýsir því svo að hann hafi nýtt gögn þeirra Pálma og Jóns en síðan bætt mörgu við bæði úr prentuðum bókum og handritum. Vikivakakvæðunum safnaði hann að mestu úr handritum og skrifaði upp úr um 200 handritum úr Árnasafni og yfir 250 úr handritasafni Bókmenntafélagsins (ÍGSVÞ III 5). Hann segist einnig hafa fengið allmikið þulusafn frá Jóni en hann hafi aukið það svo mikið að hann hafi fullan rétt til að kalla sig einn safnanda. Hann hefur bætt við öllum sagnakvæðum, ýkjukvæðum, fuglakvæðum og gamankvæðum (ÍGSVÞ IV [3]).

Síðasti hluti safnsins kom út eftir að Ólafur lést. Finnur Jónsson prófessor í Kaupmannahöfn sá um lokafráganginn og segir að safnið verði gagnlegt fræðimönnum á ýmsum sviðum og efnið „afarmerkilegt fyrir menningarsögu Íslendinga á liðnum öldum“ (ÍGSVÞ IV 384). Finnur telur að Ólafur mætti þó hafa verið nákvæmari í vinnubrögðum, t.d. hvað varðar samanburð handrita. Ólafur nefnir sjálfur einungis tvö atriði sem hann er „hræddur um að verði ásteytíngarsteinar“: Annað er það að fólki muni ekki finnast efnið nógu merkilegt og jafnvel ógagnlegt, en Ólafur bendir á að skemmtun sé holl upplyfting fyrir ungmenni sem verða þá aftur duglegri að vinna. Hitt atriðið eru „klúryrði“, en um þau segir Ólafur:

„Klúryrði koma fyrir í svo mörgum íslenzkum skemtunum, að það hefði verið ógjörningur að sleppa þeim öllum ... Yfir höfuð er það talinn einn aðalkosturinn við þjóðsögur og slík fræði, hvað þær eru hispurslausar og blátt áfram. Þær tala valla nokkurn tíma undir rós, eins og nú ber svo opt við, en fyrir bragðið gánga þjóðirnar þar til dyra í hversdagsfötunum sínum, en ekki í sparifötunum, eins og í svo mörgum kvæðum og skáldsögum, sem nú eru samin“ (ÍGSVÞ II 29).

Birt þann 9. febrúar 2021
Síðast breytt 24. október 2023
Heimildir

Hundakæti: Dagbækur Ólafs Davíðssonar 1881–1884. Þorsteinn Vilhjálmsson annaðist útgáfuna. Reykjavík: Mál og menning, 2018.

ÍGSVÞ = Íslenzkar gátur, skemtanir, vikivakar og þulur. 4 bindi. Safnað hafa J. Árnason og Ó. Davíðsson. Kaupmannahöfn: Hið íslenzka bókmentafélag, 1887–1903.

Ólafur Davíðsson. Íslenzkar þjóðsögur. Fimm útgáfur í Reykjavík: Ísafoldarprentsmiðja, 1895; Reykjavík: Ísafoldarprentsmiðja, 1899; Akureyri: Þorsteinn M. Jónsson, 1935–1939; Akureyri: Þorsteinn M. Jónsson, 1945; Reykjavík: Þjóðsaga, 1978–1980.

Úr fórum Jóns Árnasonar: Sendibréf. 2 bindi. Finnur Sigmundsson bjó til prentunar. Reykjavík: Hlaðbúð, 1950–1951.